134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

verðbréfaviðskipti.

7. mál
[14:18]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir umræðuna um þetta mál. Við munum að sjálfsögðu fara eins vel yfir þetta og kostur er þegar málið fer til afgreiðslu í nefnd og skoða hvaða svigrúm við höfum gagnvart því hvað sett er í lög og hvað í reglugerðir og hvernig rammatilskipunin um framsal reglugerðarvaldsins kemur að þessu máli.

Það var athyglisverður punktur sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom með um fjármálaeftirlit í heimalandi og gistiríki hins vegar og þetta munum við allt skoða við yfirferðina þegar málið fer héðan eftir 1. umr.

Talið er að ekki verði um að ræða meira framsal en áður hefur verið hvað þetta varðar en það er sjálfsagt að skoða þennan punkt sérstaklega. Þetta kemur að mjög mikilvægum þætti hvað varðar Evrópska efnahagssvæðið og þann samning sem við höfum starfað eftir núna í 11, 12 ár. Það skiptir að sjálfsögðu alltaf máli þegar uppi eru vísbendingar um að framsal gangi lengra en gert hefur verið hingað til og áður. Við munum fara sérstaklega yfir þetta allt í nefndarvinnunni sem fram undan er og hvernig þessu verður öllu háttað.

Hér er um að ræða yfirgripsmikla bálka og auðvitað hefði verið ákjósanlegt að hafa meira rými til að fara í gegnum þetta. Málið er brýnt og um það virðist ríkja nokkur samstaða. Það er ýtt mjög á að við höfum þann aðlögunartíma sem kostur er og það er stutt eftir. Ef það hefði komið inn á haustþinginu fyrst það kláraðist ekki á síðastliðnum vetri hefði kannski ekki verið um að ræða nema örfáa daga frá því að Alþingi afgreiddi málið og þangað til tilskipunin tæki gildi 1. nóvember um alla Evrópu.

Ég þakka þessa umræðu og við munum fara ítarlega í þessa punkta og marga aðra í framhaldinu.