134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[15:07]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er verið að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Hér er um mjög gott mál að ræða sem ég styð svo langt sem það nær. Það fjallar m.a. um að lagt er til að atvinnutekjur þeirra sem eru 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á greiðslur lífeyristrygginga. Í kostnaðarmati er gert ráð fyrir að þetta kosti um 560–700 millj. kr. árlega. Hér er því um mikið hagsmunamál að ræða fyrir eldri borgara.

Það kemur í raun og veru ekki á óvart að á fyrstu dögum nýs þings séu málefni aldraðra og lífeyrisþega til umræðu. Þessi málefni hafa verið til mikillar umfjöllunar á síðasta kjörtímabili og mörg skref hafa verið stigin í þá átt að bæta hag aldraðra og öryrkja á síðasta kjörtímabili sem og metnaðarfull áform í því að bæta þjónustu og búsetuúrræði þar að lútandi. Því verkefni er svo sannarlega ekki lokið. Í aðdraganda síðustu kosninga urðum við vör við það, frambjóðendur allra flokka, að þessi málefni brunnu mjög mikið á landsmönnum öllum, ungum sem öldnum og snertu okkur flestöll. Því kom ekki á óvart að allir stjórnmálaflokkar sem nú eiga sæti á Alþingi lögðu fram mjög metnaðarfulla stefnuskrá til þess að bæta aðstöðu, búsetuúrræði og kjör þessa hóps og veitir svo sannarlega ekki af.

Með því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram eru stigin ákveðin skref í þá átt að bæta kjör þessa hóps. Við framsóknarmenn lögðum mikla áherslu á málefni aldraðra í aðdraganda síðustu kosningabaráttu og segir m.a. í kosningastefnuskrá okkar að við viljum stuðla að sveigjanlegum starfslokum á vinnumarkaði, hækka frítekjumark á atvinnutekjur lífeyrisþega og frítekjumark verði sett á greiðslur úr lífeyrissjóðum og að einfalda eigi almannatryggingakerfið, svo fátt eitt sé nefnt. Enda er hér um umfangsmikinn málaflokk að ræða. Það leiðir því af sjálfu sér að við framsóknarmenn styðjum það ágæta mál sem hér er lagt fram, en eins og ég sagði hér áðan, svo langt sem það nær.

Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort við skilgreinum ekki aldraða sem einn hóp, 67 ára og eldri. Í því frumvarpi sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir því að þessum hópi verði skipt upp í tvennt, þ.e. 67–70 ára og 70 ára og eldri, gagnvart kjörum. Þannig að atvinnutekjur ellilífeyrisþega og vistmanna 70 ára og eldri hafi ekki áhrif á fjárhæð ellilífeyris, tekjutryggingar, vasapeninga o.s.frv.

Það er því eðlileg spurning sem vaknar í þessari umræðu hvort menn og stjórnvöld tryggi jafnræði ellilífeyrisþega með þeim hætti og hvort við séum í rauninni að framfylgja því sem flestir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn töluðu fyrir í síðustu kosningabaráttu. Þá ræddum við um hversu starfskraftar eldra fólks væru dýrmætir fyrir íslenskt atvinnulíf, reynsla þess og allt þar fram eftir götunum. Með því frumvarpi sem hér er er því miður ekki verið að bæta kjör eldri borgara 67–70 ára. Reyndar er kveðið á um að lækka eigi skerðingarhlutföllin á kjörtímabilinu. En ég tel að við þyrftum að skoða það í fúlustu alvöru hvort það sama eigi ekki að gilda yfir allan hóp eldri borgara. Það eru að minnsta kosti sjónarmið í þessari umræðu.

Ef menn meina eitthvað með því að við viljum stuðla að því að þeir sem eru hressir og heilir heilsu geti stundað atvinnu án þess að verða fyrir miklum skerðingum, að það sé virkilegur hvati fyrir fólk sem er á besta aldri, 67 ára til sjötugs, ef við viljum virkilega stuðla að því að þetta fólk verði áfram á íslenskum vinnumarkaði og jafnvel vel fram yfir sjötugt, rétt eins og verið er að gera með þessu frumvarpi, þá held ég að við þurfum að spyrja okkur þessarar spurningar og skoða þessi mál nánar. Ég á von á að við munum fara vel yfir þetta hér í þinginu og að þetta verði tekið til sérstakrar skoðunar.

Annað sem við höfum rekið okkur á í umræðunni eru hinar miklu tekjutengingar á milli maka sem oftar en ekki hafa bitnað á húsmæðrum, eldri konum sem hafa kosið að vera heima og sjá um bú sitt ala upp börn sín, og hafa þar af leiðandi ekki verið mikið úti á vinnumarkaðnum. Þessi hópur kvenna hefur verið skertur óhóflega mikið vegna tekna maka. Ég veit að við höfum mörg séð svæsin dæmi um það. Ég held að allir stjórnmálaflokkar hafi verið sammála því að þessu þyrfti að breyta. Það er því sérstakt fagnaðarefni að til standi að gera þessum hópi hærra undir hópi hvað þetta varðar. Því þessar tekjutengingar hafa verið allt of miklar og í rauninni þurfum við að breyta þessu svo fljótt sem verða má. Reyndar er ekki tekið sérstaklega á því hvenær það verði gert á kjörtímabilinu. Ég tel brýnt að við komum til móts við þennan hóp og nú er lag að mörgu leyti. Við búum við mjög öflugan ríkissjóð og það þarf að koma til móts við þennan hóp. Hér er í raun um réttlætismál og jafnréttismál að ræða fyrir þær konur sem hafa komið börnum sínum til manns, séð um heimilið á meðan tíðarandinn var sá að karlarnir voru frekar á vinnumarkaði en konur. Það þarf að koma til móts við þennan hóp.

Ég vil, hæstv. forseti, minna á að þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar sem við ræðum nú kemur bara þeim til góða sem hafa fulla heilsu til vinnu. Við framsóknarmenn viljum jafnframt horfa til þeirra sem eru heilsuveilir og/eða öryrkjar og bæta hag þeirra. Þetta frumvarp sem við ræðum hér tekur ekki á því, því miður.

Árið 2005 voru 8.809 manns á aldrinum 70–74 ára. 1.240 af þeim voru á vinnumarkaði eða rúm 14%. Sama ár voru 16.926 75 ára og eldri. 780 af þeim voru á vinnumarkaði eða 4,6%. Staðreyndin er sú að töluverður hópur af því fólki sem er á þessu aldursbili getur ekki sinnt vinnu og þar af leiðandi þurfum við að koma með öðrum hætti til móts við þennan hóp. Það er eins og ég sagði áðan ekki gert með þessu frumvarpi. Ég hef trú á því, miðað við hvað stjórnmálamenn og flokkar lögðu til fyrir síðustu kosningar, að það verði komið til móts við þennan hóp. Þannig að ég tel að hér sé um fyrsta skref að ræða til þess að bæta almennt hag aldraðra í samfélagi okkar.

Hæstv. forseti. Nú nýlega hefur verið skipt um forustu hjá Landssambandi eldri borgara. Í DV í dag, 6. júní, er viðtal við nýjan formann, Helga K. Hjálmsson og vil ég hér úr stóli Alþingis óska honum góðs gengis í formennsku sinni. Það er mikilvægt starf, að halda stjórnvöldum á hverjum og einum tíma við efnið varðandi málefni aldraðra. Í viðtalinu segir Helgi K. Hjálmsson, m.a. með leyfi forseta:

„Kjaramálin eru númer eitt, tvö og þrjú. Við erum með okkar ákveðnu skoðanir í þeim málum. Í fyrsta sæti set ég hækkun á grunnlífeyri. Þar næst hækkun skattleysismarka. Loks vil ég tekjutengingu bóta burt.“

Formaður Landssambands eldri borgara setur hækkun á grunnlífeyri í fyrsta sætið og þar næst hækkun skattleysismarka. Miðað við fyrirheit ríkisstjórnarinnar vil ég trúa því að það verði ráðist í úrbætur hvað þessi atriði varðar. Það er ekki að finna í því frumvarpi sem hér er lagt fram. Enda er það svo að ríkisstjórnin er nú rétt nýlega tekin við og við skulum gefa henni umþóttunartíma til þess að standa við þau fögru loforð sem þeir flokkar sem að þeirri ríkisstjórn standa hafa gefið. Við sem erum í stjórnarandstöðu munum veita ríkisstjórnarflokkunum aðhald, að þeir muni standa við þau stóru orð og þau metnaðarfullu áform sem lögð voru til í aðdraganda kosninga.

Hér er um mikilvægan málaflokk að ræða, við getum gert betur hér. Ég dreg ekki dul á það að mörg, mjög góð skref voru stigin í tíð fyrrverandi hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Sivjar Friðleifsdóttur, og miklir fjármunir voru settir í þennan málaflokk. En hins vegar er þeirri vegferð svo sannarlega ekki lokið.

Ég vil óska nýkjörnum heilbrigðisráðherra velgengni í þessum mikilvæga málaflokki. Ég hef ekki getað gert það hér áður úr þessum stóli. Hér er um mjög stóran og mikilvægan málaflokk að ræða. Menn skulu standa við stóru orðin sem féllu í aðdraganda síðustu kosninga og við í stjórnarandstöðunni munum sannarlega koma með okkar tillögur í þessum málaflokki. Ég hef trú á því að við munum veita ríkisstjórninni mjög öflugt aðhald hvað þetta varðar. Við munum ekki, eins og fyrrverandi hv. stjórnarandstaða, m.a. í fjárlagagerð, skila auðu. Við munum koma með okkar tillögur því við lofuðum ákveðnum hlutum og við viljum stuðla að því að það verði gerðar úrbætur í málefnum eldri borgara. Þetta er fyrsta skrefið í þeirri vegferð og ég óska ríkisstjórninni og Alþingi öllu góðs gengis í því að bæta kjör eldri borgara.