134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[15:19]
Hlusta

Björk Guðjónsdóttir (S):

Herra forseti. Frumvarpið sem hér er lagt fram um breytingar á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra er fagnaðarefni. Við sjálfstæðismenn lögðum eins og aðrir flokkar á það áherslu í nýafstöðnum kosningum að kjör aldraðra yrðu bætt. Með því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram af hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er vissulega stigið skref í þá átt að auka rétt aldraðra til tekjuöflunar án skerðingar á ellilífeyri.

Við höfum á undanförnum mánuðum séð að ýmis fyrirtæki hafa sóst eftir starfskröftum hinna eldri og reyndari. Með þessu frumvarpi er þeim einstaklingum sem áhuga hafa á atvinnuþátttöku meðan heilsan leyfir og vilji er fyrir hendi gefinn kostur á því án þess að það leiði til skerðingar á lífeyri almannatrygginga.

Í aðdraganda nýafstaðinna alþingiskosninga varð ég vör við, eins og fleiri hv. þingmenn, að bætt kjör ellilífeyrisþega var mál sem brann mjög á fólki á öllum aldri, ekki aðeins á eldri borgurum. Ég er sannfærð um að nú séu þær efnahagslegu forsendur til staðar að mögulegt sé að bæta hag þessa aldurshóp eins og nú er lagt til.

Herra forseti. Það er sannfæring mín að þær breytingar sem hér er lagt til að gerðar verði að lögum um almannatryggingar verði þeim eldri borgurum sem þær ná til til hagsbóta og betri kjara. Í stjórnarsáttmálanum er einnig gert ráð fyrir frekari úrbótum í málefnum aldraðra en mál þess efnis verða lögð fram á haustþingi. Það er því ljóst að hæstv. ríkisstjórn hefur í hyggju að taka strax á þeim málum sem snúa að málefnum aldraðra. Því ber að fagna.