134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[15:32]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp frá hæstv. heilbrigðisráðherra og ég vil byrja á því að óska honum til hamingju með starfið og vona að hann verði landi og þjóð til gagns. Ég efast reyndar ekki um það.

Það sem menn þurfa að átta sig á er að til þess að hafa gott velferðarkerfi þurfa menn gott og heilbrigt atvinnulíf. Ég hef lýst því þannig, ef við tökum myndlíkingu af þjóðarskútunni, að fyrstu kjörtímabilin sem Sjálfstæðisflokkurinn var við völd fóru í það að koma í gang vélinni sem þá hökti og síðan koma mannskapnum í gott skap, áhöfninni, og nú erum við komin að því að sinna velferðarkerfinu. Þar sem vélin gengur á miklum hraða og áhöfnin hefur fengið miklar launahækkanir vil ég að þetta kjörtímabil verði helgað velferðarkerfinu sem nýtist síðan okkur öllum, launþegum á vinnumarkaði, börnum og öllum öðrum. Það er hluti af lífskjörum þjóðarinnar. Og verkefni þessa kjörtímabils ættu að vera að velferðarkerfið verði skilvirkt og einfalt.

Ef við skoðum einstaka hópa í þjóðfélaginu fá þeir alls konar félagsleg skilaboð. Þeir sem eru 15 ára fá þau skilaboð að þeir eigi að hegða sér eins og vitleysingar af því að þeir eru unglingar. Þeir gera það reyndar ekki nema einstaka maður en þeir fá samt þau skilaboð frá þjóðfélaginu. Þeir sem eru öryrkjar fá líka ákveðin skilaboð frá þjóðfélaginu. Þeir eru ör-yrkjar, eiga bara ekkert að geta unnið. Svo eru löggilt gamalmenni, herra forseti, sem fá líka ákveðin skilaboð. Þau eiga að vera löggilt gamalmenni. Þau eiga sko ekki að dansa eða fara á línuskauta og annað slíkt.

Þetta er mjög hættulegt. Öll kerfi okkar ganga út á að undirbyggja svona skilaboð. Við eigum að vinna gegn þessu. Ég hef meira að segja grun um að konur fái frá þjóðfélaginu skilaboð um að þær eigi að sætta sig við lægri laun sem er náttúrlega alveg ótrúlegt. Þetta eru þau skilaboð sem menn búa við og mjög margir fara eftir þeim. Ég held að það eigi sérstaklega við um aldraða.

Ég held að við þurfum að fara að líta á getu öryrkja og aldraðra miklu meira en á einhvern aldur eða einhverja fötlun. Það er einmitt markmiðið á bak við starf örorkunefndarinnar sem skilaði af sér í mars og er núna farin að vinna að útfærslu, þ.e. að líta á getu öryrkja en ekki fyrst og fremst vangetuna. Og ég vil að það sama sé gert gagnvart öldruðum.

Aldraðir eru miklu sprækari núna en þeir voru fyrir 40 árum. Maður sem var orðinn sextugur fyrir 40 árum var orðinn fjörgamall. Ekki í dag, alls ekki í dag. Ég hitti fólk á elliheimilunum sem er komið yfir nírætt og ekkert amar að. Mjög sprækt fólk og vel hugsandi. Og ekkert að því nema að það er bara gamalt. Það er það eina. Þess vegna held ég að við þurfum að hugsa allt kerfið upp á nýtt.

Margir líta á vinnuna sem kvöð, áþján. Hún er það ekki. Í augum flestra er vinnan mjög merkilegt fyrirbæri, t.d. gefur hún manninum þá tilfinningu að hann hafi hlutverk, hann hafi hlutverk í lífinu sem er það að sinna þessari vinnu. Þegar hann missir vinnuna, hvort sem það er vegna atvinnuleysis, elli, verður svokallað löggilt gamalmenni, eða örorku, missir hann þetta hlutverk. Hann er ekki lengur gjaldgengur í þjóðfélaginu. Þetta er mjög alvarlegt áfall fyrir einstakling að lenda í. Við eigum að reyna að hindra þetta.

Það hefur líka sýnt sig í könnunum á öldruðum að dánarlíkur aldraðra aukast mjög mikið fyrstu mánuðina eftir að þeir fara á ellilífeyri sennilega vegna þess að þeir hafa ekki lengur tilgang. Við eigum að gefa þeim tilgang, þeim sem það vilja.

Vinna er meira en þetta. Hún er líka félagsskapur góðra vinnufélaga. Hún er ákveðin skemmtun. Hún er ákveðin regla í lífinu fyrir fólk þannig að við þurfum að breyta hugsuninni. Þetta frumvarp sem við erum með er að hluta til viðleitni í þá átt að þeir sem vilja og langar til geta haldið áfram að vinna án þess að vera refsað af velferðarkerfinu með því að skerða bætur.

Hv. þingmenn þurfa þó að gera sér grein fyrir því að þeir eru að búa til vanda. Þeir verða að átta sig nákvæmlega á því hvaða vanda þeir eru að búa til. Ég hef ekki heyrt það neitt rætt hér í dag, eða lítið.

Það eru til aldraðir sem geta ekki unnið, þeir fá ekki vinnu. Þeir njóta ekki þessa. Þeir þurfa að horfa upp á jafnaldra sína sem eru kannski í góðri vinnu, hafa góðar tekjur og fá óskertar bætur. Það er einn vandinn. Það er samanburðurinn á þeim bæ. Svo erum við líka með vinnandi fólk sem vinnur hlið við hlið eins og nefnt var í framsöguræðu hæstv. heilbrigðisráðherra. Það geta verið tveir menn á vinnustað. Annar þeirra verður sjötugur einn daginn og allt í einu fær hann 140 þús. kr. til viðbótar, eða reyndar 126 þús. kr. á meðan 25 þús. kallinn er ekki kominn. Hann fær það bara til viðbótar sisvona, úr hinum sameiginlegu sjóðum sem sá sem er við hliðina á honum vinnur fyrir og borgar. Segjum að þeir séu með 300 þús. kr. í tekjur hvor um sig og haldi þeim áfram en svo er allt í einu annar kominn með 426 þús. kr. á mánuði ef hann býr einn og er aldraður. Menn þurfa að átta sig á þessu. Þess vegna er ekkert voðalega auðvelt að fara með þessi mörk niður af því að þá vex samanburðurinn enn frekar. Þetta eru skýringarnar á því.

Einu sinni voru skerðingar á þessari tekjutryggingu. Þetta hét tekjutrygging, og heitir það. Það er verið að tryggja þeim tekjur sem ekki hafa tekjur annars staðar, hvorki úr lífeyrissjóði, af atvinnu né af fjármagni. Þetta heitir tekjutrygging og þess vegna voru skerðingarnar mjög miklar til að byrja með, 67% ef ég man rétt, fóru síðan niður í 45%. Við erum búin að lækka þær niður í tæplega 40% á þessu ári og fer niður í 38,35% á næsta ári og síðan er stefnt að því í lok kjörtímabilsins að þetta fari niður í 35%.

Þetta býr líka til vanda. Öryrki sem vinnur við hliðina á einhverjum öðrum hefur þá enn meira til ráðstöfunar en sá sem vinnur við hliðina á honum. Menn þurfa að átta sig á því. Þess vegna er ekkert voðalega auðvelt að fara með skerðingarnar niður í 0. Það er nánast útilokað út af samanburðinum. Það mundi búa til félagslegt óréttlæti í þjóðfélaginu af því að þessar bætur er borgaðar af öllum, líka manninum sem vinnur við hliðina á hinum aldraða eða öryrkjanum.

Það er annað með lífeyrissjóðina. Þar hafa menn borgað inn iðgjöld alla tíð og eiga eignina sem þeir njóta lífeyris frá. Þess vegna hefur enginn talað um það að lífeyrir frá lífeyrissjóðum verði einhvern veginn háður tekjum mannsins. Hann má bara vinna ef honum dettur það í hug þegar hann er orðinn gamall. Það er reginmunur þarna á. Annað er borgað úr sameiginlegum sjóðum en hitt úr uppsafnaðri eign.

Staða aldraðra, herra forseti, er afskaplega misjöfn. Það eru stóreignamenn á meðal aldraðra. Það eru hátekjumenn á meðal aldraðra. 800 aldraðir voru með meira en 300 þús. kr. í tekjur úr lífeyrissjóðum á mánuði árið 2005 og fengu grunnlífeyririnn þess vegna óskertan, 25 þús. kr.

Svo er annað eins og kom fram í máli hv. þm. Ástu Möller sem flutti mjög góða ræðu hérna um þetta, þ.e. þriðjungur aldraðra nær ekki 25 þús. kr. úr lífeyrissjóði. Staða þeirra er afskaplega misjöfn.

En það eru ekki bara peningarnir sem skipta máli. Alls ekki. Við skulum horfa á hina félagslegu stöðu aldraðra. Sumir eru í þeirri stöðu að þeir búa innan um börnin sín, í íbúð kannski í kjallaranum, í daglegu sambandi. Barnabörnin koma á hverjum einasta degi, sem sagt mjög virkt samband við fjölskylduna. Svo hef ég heyrt af öðrum sem búa á elliheimilum og hafa ekki fengið heimsókn í mörg ár þótt ættingjarnir búi kannski í næstu götu. Sú staða er ekki góð. Ég held að einsemd aldraðra sé töluvert mikil. Það er eitthvað sem við ættum líka að horfa á. Það er reyndar unnið mjög mikið og gott starf á vegum sveitarfélaganna til þess að vinna gegn einsemd aldraðra.

Heilbrigði aldraðra hefur verið mikið í umræðunni og ég hugsa að margt ungt fólk í dag haldi að allir aldraðir séu með alzheimer eða séu öðruvísi veikir. Það er gjörsamlega út í hött. 80% aldraðra búa heima hjá sér og eru heilbrigðir. Meginþorri þeirra er bara heilbrigður og ekkert að honum. (Gripið fram í: Sumir eru heima og veikir.) Sumir eru heima og veikir, já, einstaka. Ég held að það séu kannski 10% sem þarfnast aðhlynningar. Umræðan hefur snúist eingöngu um þann litla hóp og auðvitað þurfum við að gera vel við þann litla hóp, nákvæmlega eins og aðra veika í öðrum aldurshópum. Fólk verður veikt líka um þrítugt. Ég veit ekki betur.

Við þurfum að fara að aðgreina heilbrigðisþjónustu almennt. Hún á að vera góð fyrir alla aldurshópa, jafnt aldraða sem yngri, og við eigum að hætta að einblína eingöngu á aldraða. Það er orðið hættulegt. Við getum lent í sömu stöðu og landsbyggðin þegar búið var að tala svoleiðis vandamál inn á hana að hún bara koðnaði niður. Landsbyggðin var gerð að aumingjum. Sem betur fer sáu menn að sér og hættu vælinu og þá batnaði staðan heilmikið á sumum stöðum, eins og t.d. á Dalvík — ég sé hérna fyrrverandi bæjarstjóra Dalvíkur. Þar var bjartsýni og ekkert væl.

Hið sama gildir um aldraða. Staða þeirra er yfirleitt góð. Það eru til dæmi um menn sem hafa það fjárhagslega slæmt, mjög slæmt, og við erum einmitt að grípa undir með þeim með tillögunum um 25 þús. kr. sem fara í gegnum lífeyrissjóðina svipað og umsjónarnefnd eftirlauna hér í eina tíð vegna þess að það sýndi sig að koma best við þá sem verst eru settir.

Það eru ekki bara heimavinnandi húsmæður og þeir sem eru orðnir fjörgamlir sem aldrei gátu borgað í lífeyrissjóð, heldur eru líka sjóðfélagar í nokkrum lífeyrissjóðum í landinu eins og Lífeyrissjóði bænda og Lífeyrissjóði leigubifreiðastjóra sem fá lífeyri langt undir 25 þús. kr. Sjóðirnir eru að borga lífeyri upp á 5 þús. kall á mánuði. Það fólk mun njóta þessara breytinga. Svo er fólk sem hefur verið heima yfir veikum börnum alla ævi o.s.frv., aðallega konur náttúrlega, eiginlega eingöngu konur. Aðgerðin upp á 25 þús. kr. held ég að sé fjárhagslega ein besta aðgerð til að bæta stöðu þeirra sem verst eru settir.

Það kom fram í máli hv. þm. Ástu Möller að lágmark þess sem aldraður sem býr einn fær í dag er 126 þús. kr. Það fær enginn minna en það. Ef 25 þús. kr. verða komnar til viðbótar er það komið upp í 138 þús. kr. sem er lágmark þess sem einhver fær, sá sem er aldraður og býr einn. Algjört lágmark. Ég vil minna á að lægstu laun í landinu eru um 125 þús. kr. Það er fólk á þeim launum, því miður. Í samanburði held ég að þessi staða sé orðin góð því að ellilífeyrisþegar borga ekki iðgjald í lífeyrissjóð eðli máls samkvæmt sem er 4% og þeir borga heldur ekki félagsgjald í stéttarfélag. Þessar tölur eru ekki alveg sambærilegar og eru hinum aldraða í hag.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra. Ég er mjög ánægður með þetta frumvarp og vona að næsta úrræði sem er 25 þús. kr. verði afgreitt sem fyrst. Ég tel að það sé öllu mikilvægara því að þar er verið að aðstoða þá sem alverst eru settir fjárhagslega. Svo koma lækkandi skerðingar seinna meir á kjörtímabilinu en þær nýtast náttúrlega líka þeim sem hafa hærri tekjurnar og miklu betri. Ég minni á að hækkun á grunnlífeyrinum mun líka gagnast hátekjufólki.