134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:40]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er greinilegt að hæstv. iðnaðarráðherra er ekki alveg kominn úr stjórnarandstöðuhamnum. Honum hefur ekki tekist á þeim fáu dögum frá því að ríkisstjórnin var mynduð að temja sér það fas sem hæfir þeirri stöðu sem hann nú skipar.

Það sem mér finnst einna athyglisverðast við ræðu hæstv. ráðherra er að hann segir að nú ætli Sjálfstæðisflokkurinn, sem hann er með í ríkisstjórn, að fara að byggja á arfleifð Reykjavíkurlistans varðandi kynbundinn launamun. Öðruvísi mér áður brá að Sjálfstæðisflokkurinn tæki slíkt í mál. En batnandi mönnum er best að lifa og kannski það muni takast.

Markmiðið sem menn settu sér í Reykjavíkurlistanum var auðvitað að aflétta kynbundnum launamun. Það sem við erum að gagnrýna hér og hv. þm. Atli Gíslason hefur leyft sér að gagnrýna er þessi markmiðssetning, að hún sé ekki mjög metnaðarfull. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Atla Gíslasyni og það er ekki nema von að hæstv. ráðherrann bregðist svona við, sannleikanum verður hver sárreiðastur.

Hæstv. ráðherra sagði að við ættum að bíða eftir að fá reynslu af meiri hlutanum hér á þingi. Það er komin nokkur reynsla, hæstv. iðnaðarráðherra. Meðal annars höfum við nú á þessum örfáu dögum fengið þá reynslu að beitt hefur verið pólitískum og ólýðræðislegum þvingunum í þessum sal til þess að ná fram vinnubrögðum sem ekki eru við hæfi að margra mati. Við höfum líka þá reynslu að það er venjulega Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur fengið að tala fyrir hönd Samfylkingarinnar og hvað eftir annað hefur þurft að draga fulltrúa Samfylkingarinnar í ræðustól.

Í þriðja lagi er þetta frumvarp sem hér er til umræðu aðeins eitt lítið hænufet og hvaðan skyldi það komið? Það er reynsla okkar, (Forseti hringir.) það er ættað úr kosningastefnuskrá Sjálfstæðisflokksins og hvergi annars staðar.