134. löggjafarþing — 5. fundur,  6. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[18:54]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Erindi mitt hér í ræðustól er nú að hrósa hæstv. iðnaðarráðherra. Það er kannski leiðin að hjarta hans, ég veit það ekki. En ég ætla að hrósa honum fyrir að koma í ræðustólinn, flytja ræðu og taka þátt í umræðu við okkur í stjórnarandstöðunni. Öðruvísi mér áður brá. Vonandi teiknar þetta gott næstu fjögur árin nema hæstv. iðnaðarráðherra verði barinn niður af öðrum ríkisstjórnarmeðlimum. En það hygg ég að verði nú ekki, ég hef það mikla trú á hæstv. ráðherra.

Ég heiti því að leggja honum þau vopn í hendur þannig að hann geti gert mun betur en að helminga mannréttindabrotin, kynbundna launamuninn. Ég vil auka metnað hæstv. ráðherra og ég veit að hann hefur fullan metnað. R-listinn tók á málinu, sem var til fyrirmyndar, en hafði ekki vopnin. Betur má ef duga skal. Það vantar vopn og þau munum við í Vinstri grænum færa hæstv. iðnaðarráðherra, ríkisstjórninni og Samfylkingunni sérstaklega.