134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

orkusala til álvers í Helguvík.

[10:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Í fyrradag var í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykktur nýr samningur um orkusölu til álbræðslu í Helguvík. Ekki voru allir á eitt sáttir um gerð hans. Fulltrúi okkar vinstri grænna, Svandís Svavarsdóttir, gekk út af fundi af tveimur ástæðum, í fyrsta lagi vegna leyndarinnar sem hvíldi yfir orkuverðinu og í öðru lagi vegna þess að hún taldi samninginn stríða gegn yfirlýstum markmiðum fyrirtækisins um að starfa á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Hvorki lægi fyrir hversu umfangsmikil áformin væru né heldur hvar ætti að taka orkuna til að knýja álverið.

Hæstv. forseti. Ég hef valið að beina máli mínu til hæstv. umhverfisráðherra og fá fram hennar álit á þessum samningi með tilliti til yfirlýsingar hennar um að hún ætli í embætti að vera málsvari umhverfisins, nokkuð sem okkur hefur báðum þótt á skorta með fyrirrennara hennar í starfi. Hvernig horfir þessi ákvörðun við hæstv. umhverfisráðherra? Er hún sátt við það að nú skuli tekin ákvörðun um að reisa álver í Helguvík, að öllum líkindum í þremur áföngum með orkuþörf upp á sennilega yfir 600 megavött? Ég minni á í því sambandi að Kárahnjúkavirkjun er rúm 700 megavött. Telur hæstv. umhverfisráðherra þessi áform samrýmast hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar í ljósi þess að rafmagnsframleiðsla með jarðhita getur vart talist sjálfbær? Og hvernig fara þessi áform saman við yfirlýsingar hæstv. ráðherra sem hún viðhafði á fimmtudagskvöldið í síðustu viku í umræðunni um stefnuræðu forsætisráðherra þegar hún sagði að ríkisstjórnin mundi ætla að setja það í forgang að vernda háhitasvæði landsins?

Virðulegi forseti. Það standa á hæstv. umhverfisráðherra öll spjót þessa dagana. Íbúar og starfsfólk sjálfseignarstofnunarinnar Skaftholts hefur óskað eftir því að hún standi vörð um Þjórsá. Sólarsamtökin hafa hvatt hana til að kynna stóriðjuáform á Suðurlandi og Suðvesturlandi fyrir almenningi og nú er óskað eftir því hér, hæstv. forseti, að hæstv. umhverfisráðherra sýni á spilin í þessum efnum. Hvernig ætlar ríkisstjórnin að beita sér til þess að háhitasvæðin á landinu verði vernduð á sama tíma og álversáformin eru eins og þau eru?