134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

orkusala til álvers í Helguvík.

[10:39]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Nú hefur það gerst sem ýmsir reiknuðu með, margir óttuðust en flestir vonuðu að yrði ekki, staðfesting á því að stóriðjustefnan lifir góðu lífi í ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Fyrirheitin eru gleymd og grafin og vonirnar sem Samfylkingin vakti meðal landsmanna að engu orðnar.

Orkuveita Reykjavíkur hefur nú gert orkusölusamning við Norðurál vegna nýs álvers í Helguvík upp á 100 megavött í 1. áfanga af þremur. Orkunnar verður aflað af háhitasvæðunum á Hengilssvæðinu og á Reykjanesi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Sérstök áhersla verði lögð á að meta verndargildi háhitasvæða landsins og flokka þau með tilliti til verndar og orkunýtingar.“

Nú er þetta að vísu afskaplega veiklulegt orðalag og fátt handfast í þessum efnum í stjórnarsáttmálanum. En hæstv. umhverfisráðherra lét þau orð falla í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra að það yrði sett í forgang að vernda háhitasvæði landsins og í því efni mundu ráðuneyti umhverfismála og iðnaðar eiga náið samstarf. Fyrsti liður í kosningastefnuskrá Samfylkingarinnar, Fagra Íslandi, flokks iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra, hljómar svo, með leyfi forseta:

„Slá ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð.“

Út á þetta gerði Samfylkingin í kosningabaráttunni. Nú er bersýnilegt að engin stefnubreyting hefur orðið í stóriðjumálum með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar, eða hvað? Eru einkunnarorð núverandi hæstv. ríkisstjórnar í stóriðjumálum e.t.v. „ekkert stopp“ sem hljómaði raunar úr öðrum ranni fyrir fáum vikum? Hæstv. umhverfisráðherra segir við þessa umræðu að orkusölusamningurinn sé ekki ávísun á nýtt álver, það sé ekki sjálfgefið. Í ljósi þeirra orða og í ljósi kosningaloforða Samfylkingarinnar hljótum við að vilja vita: Hvað hefur hæstv. umhverfisráðherra aðhafst til að hrinda í framkvæmd yfirlýstum vilja til að vernda háhitasvæði landsins? Styður ráðherrann uppbyggingu álvers í Helguvík? Hvernig telur ráðherrann þessi áform samrýmast (Forseti hringir.) stefnu Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni og hvernig samrýmast þau stefnumörkun á grunni sjálfbærrar þróunar?