134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

orkusala til álvers í Helguvík.

[10:44]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þykir heldur hátt reitt til höggs að ákvörðun stjórnar í orkufyrirtæki skuli kalla fram yfirlýsingar af hálfu Vinstri grænna þess efnis að stefna ríkisstjórnarinnar sé ekki sú sem kynnt er í stefnuyfirlýsingu hennar. Ríkisstjórnin hefur aldrei hugsað sér að fara inn í stjórnir fyrirtækja og taka fram fyrir hendurnar á þeim. Ég hef alltaf skilið umræðuna um náttúruvernd þannig að við þurfum að taka ákvörðun um það inn á hvaða svæði við ætlum að fara, hvaða svæði við ætlum að nýta og hvaða svæði við ætlum að vernda þegar við horfum til framtíðar. Það er hlutverk stjórnvalda í þessum efnum. Á sama hátt hvernig við ætlum að nýta orkuna. Við megum ekki horfa á þetta þannig að orkan sé á síðasta söludegi. Það er langur vegur þar í frá. Þetta eru mikil verðmæti sem við þurfum að horfa vandlega til hvernig við ætlum að nýta og þar erum við að horfa til framtíðar.

Þess vegna þykir mér dálítið hátt reitt til höggs þegar hingað í pontu stíga fulltrúar stjórnarandstöðu og lýsa því yfir að eftir hálfan mánuð í ríkisstjórn séu hugmyndir Samfylkingarinnar ekki að fullu allar orðnar að veruleika. Það eru miklar væntingar sem menn hafa um að þetta eigi allt að vera orðið að veruleika eftir hálfan mánuð. Það er alveg kvitt og klárt að við munum ekki fara inn á þessi svæði fyrr en verndaráætlun og rammaáætlun 2 liggja fyrir sem og mat á verndargildum háhitasvæða. Það er alveg klárt en við erum að horfa til framtíðar.

Við getum ekki meinað fyrirtæki að gera orkusamninga með fyrirvara gagnvart samningsaðilum sínum. Það er alveg fráleit hugmynd. Og mér finnst mjög mikilvægt að umræða um þessi mál sé á eðlilegum og skynsamlegum nótum en ekki í svona upphlaupsstíl sem við höfum horft á hér. (Forseti hringir.) Það er hins vegar alveg rétt að ríkisstjórnin hefur ekki á þessum 10 dögum komið öllu sínu í framkvæmd. Það er rétt að viðurkenna það í þessari (Forseti hringir.) umræðu.