134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

orkusala til álvers í Helguvík.

[10:46]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að lýsa því yfir að ég var sammála öllu því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði hérna áðan. Mér fannst hann tala af skynsemd og viti sem aðrir í stjórnarandstöðunni mættu taka upp eftir honum.

Ég spyr nú hv. þm. Árna Þór Sigurðsson: Hefur hann ekki kynnt sér stefnu VG? Hefur hann ekki kynnt sér yfirlýsingar formanns VG? Hér er útskýring á frétt og viðtali við hv. þm. Steingrím J. Sigfússon nokkrum dögum eftir kosningar þar sem frá því er greint að hann vilji fara í viðræður við sjálfstæðismenn um ríkisstjórnarmyndun. Í fréttinni segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður þeirra, að ekki verði farið með neina úrslitakosti í stóriðjumálum. Og í fréttinni er hann beinlínis spurður að því hvernig hann hyggist þá fara með stóriðjumálin. Hann segir: Við förum alltaf í allar viðræður með það að markmiði að ná sem allra mestu fram. En það þýðir ekkert að fara fram með ultimatum.

Með öðrum orðum, forusta VG segir við þjóðina að Helguvík og stóriðja séu ekkert ultimatum af hennar hálfu. Þegar hann er spurður með svofelldri spurningu, með leyfi forseta: Og Helguvíkurálver gæti sloppið í gegn? Þá svarar Steingrímur J. Sigfússon: Ja, ef þannig er að það er ekki tæknilega og lagalega hægt að stoppa hana þá standa menn frammi fyrir slíku.

Þetta er það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir stendur frammi fyrir. Og, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, formaður Vinstri grænna hefur lýst því yfir að hann geri ekki stóriðju að úrslitakosti.

Samfylkingin gekk miklu lengra. Hún náði því fram að það verður undir engum kringumstæðum, hvorki fyrir 2009 né eftir 2009 farið í nokkur óröskuð háhitasvæði nema með samþykki Alþingis. Allir þeir orkusölusamningar sem hér er verið að tala um eru háðir samþykki Alþingis ef fara þarf inn á óröskuð svæði.

Með öðrum orðum þá náðum við miklu lengra en þeir sem (Forseti hringir.) berja sér hér á brjóst og segja: Við settum engin ultimatum. Samfylkingin setti ultimatum og fékk þau.