134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

orkusala til álvers í Helguvík.

[10:52]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það var svolítið undarlegt í upphafi kosningabaráttu minnar núna eftir áramótin að fylgjast með orðum Samfylkingarinnar hvað umhverfis- og álversmálin snerti. Í fyrstu var boðað stóriðjustopp, (Gripið fram í: Nei, nei.) með stóru stoppi, Ingibjörg, í Kastljósi í janúar. Síðan var farið að tala um frestun og hvernig hún átti að vera framkvæmd. Það var aldrei ljóst. Það var nú þannig í mínu kjördæmi að þar skipti einfaldlega máli hvar þingmenn voru staddir, hvernig þeir töluðu.

Framsóknarflokkurinn fagnar að sjálfsögðu þeim orðum að jarðhitann eigi að nota í skynsamlegum tilgangi. Við höfum talað fyrir því að hann og stóriðju eigi að setja niður þar sem hennar er þörf, þar sem hagvöxtur er lítill og nota þetta með hagsmuni landsbyggðarinnar að leiðarljósi.

Ég vil minna á orð hæstv. umhverfisráðherra í ræðu hennar um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra þegar hún sagði:

„Í forgang verður sett, eins og fram hefur komið, að vernda háhitasvæði landsins og meta verndargildi þeirra.“

Mér finnst að það sé komin enn ein stefnan og það er nú kannski þannig að bæði stefnuræðan og þessar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar eru allar á huldu. Það er nú kannski vert að spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Mun hún koma í veg fyrir að framkvæmdin um álverið við Keflavík fari í hið lögbundna ferli?