134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:29]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir vasklega framgöngu hvað þetta mál varðar, þessa aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Það eru ekki liðnar fjórar vikur frá kosningum og það eru varla tvær vikur frá því að ríkisstjórnin var mynduð og hér erum við komin með þetta mjög fína og metnaðarfulla plagg í hendurnar og hæstv. ráðherra búin að mæla fyrir því.

Samfylkingin lagði megináherslu á tvo hópa og velferð þeirra í nýliðnum kosningum. Það voru annars vegar aldraðir og hins vegar börn og ungmenni, undir heitinu Unga Ísland.

Ég verð að fagna því að þessi stefna Samfylkingarinnar er nú orðin að stefnu ríkisstjórnarinnar. Það er mjög mikilvægt. Hér er komið þetta þingmál, þingsályktunartillaga þar sem er tekið á öllum þessum þáttum sem þarf að taka á hvað varðar hag barna og ungmenna. Ég vil minna á að börnin okkar eru það dýrmætasta sem við eigum og það er mikilvægur mælikvarði á framsýni þjóða hvernig þær búa að yngstu kynslóðum sínum og hvernig þær búa þau undir framtíðina.

Börn eiga að njóta jafnra tækifæra til að nýta hæfileika sína til fulls. Það þarf að skapa þeim góð vaxtarskilyrði og foreldrunum góð skilyrði til þess að sinna uppeldi þeirra. Í þessari þingsályktunartillögu er tekið á málum sem þar að lúta lið fyrir lið.

Þetta plagg á að sjálfsögðu ekki að vera orðin tóm, því þurfa að fylgja aðgerðir. Eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan þá heyra þessi mál undir fimm ráðuneyti. Til þess að uppfylla þessa áætlun og gera hana að veruleika má því búast við því að inn í þingið komi frumvörp frá a.m.k. fimm ráðherrum.

Menn hafa hér aðeins gert kostnaðinn við þetta að umræðuefni. Auðvitað kostar það að reka öflugt velferðarsamfélag. Það kostar peninga. En það skilar sér líka. Það skilar sér í betra samfélagi, í meiri velferð, betri líðan barna og betri heilsu. Þau atriði sem hér eru tekin fyrir munu einmitt stuðla að því.

Þeim sem borga skatta finnst líka alltaf betra að vita til þess að peningarnir séu nýttir til uppbyggilegs starfs í staðinn fyrir að vera alltaf að borga fyrir viðgerðir, eins og því miður hefur verið allt of mikið af. Að við setjum skattana okkar í það að bæta vellíðan og bæta heilsu.

Hæstv. ráðherra rakti hér í hverju þessi aðgerðaáætlun er fólgin. Henni er ætlað að bæta afkomu barnafjölskyldna. Hæstv. ráðherra kom líka að tannverndinni sem allir stjórnmálaflokkar lögðu ríka áherslu á í nýliðnum kosningunum. Að tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti og forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum er mjög mikilvægt því við höfum horft upp á að barnafjölskyldur sem hafa lægri tekjur, hafa ekki haft tök á því að veita börnum sínum þær tannlækningar og þá tannvernd sem nauðsynleg hefur verið. Það er verið að jafna aðstöðu barna í skólum með því að styðja þau til kaupa á bókum. Það þarf að styðja foreldra við uppeldisstarfið á ýmsan hátt eins og hér kemur fram. Þá vil ég nefna að það má aldrei verða neinum foreldrum fjárhagslega ofviða að taka þátt í slíkum námskeiðum sem boðið verður upp á hvað það varðar.

Mig langar til að gera sérstaklega að umræðuefni almennar forvarnaaðgerðir en á síðustu dögum Alþingis nú í vor fyrir kosningarnar var lögð fram skýrsla um þau mál eftir að hún var unnin í kjölfar þingmáls sem allir flokkar á Alþingi lögðu fram, þ.e. öll heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis lagði fram um aðgerðir hvað varðar heilsu, aukna hreyfingu og bætta næringu. Hér er einmitt komið inn á þann þátt í þessu þingmáli sem snýr að hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég vil endilega hvetja hann til þess að vinna nú í anda þeirrar skýrslu sem lögð var fram á þinginu í vor, að stuðlað verði að aukinni hreyfingu og bættri næringu barna og bættu fæðuvali. Sömuleiðis þarf að taka á ýmsum þáttum. Ég hef t.d. lagt áherslu á að tekið verði á því áreiti sem auglýsingar á óhollustu í barnatímum eru, t.d. í sjónvarpi. Það hafa nágrannaþjóðir okkar gert og ýmsar þjóðir í Evrópu banna slíkar auglýsingar sem beinast að börnum og snúa að því að auglýsa óhollustu.

Það þarf auðvitað að beita ýmsum forvörnum til þess að bæta heilsu og líðan barna og ungmenna og ýmislegt fleira má nefna í þeim efnum. En mig langar að koma að því sem ég tel brýnast og hæstv. ráðherra nefndi einnig sem eitt brýnasta verkefnið, en það eru aðgerðir í þágu barna og ungmenna með geðraskanir og þroskafrávik og langveikra barna.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur látið sig þau mál verulega varða, sérstaklega hvað varðar langveiku börnin og þetta er mjög brýnt mál. Það þarf að taka á biðlistunum hjá barna- og unglingageðdeildinni og það þarf að taka á biðlistunum hjá Greiningarstöðinni. Það verður forgangsmál þessarar ríkisstjórnar og ég vil fagna því. Það er mjög mikilvægt og brýnt verkefni. Því miður hafa þau börn sem hafa þurft þjónustu og greiningu hjá þessum stofnunum þurft að bíða allt of lengi, þau hafa jafnvel þurft að bíða fyrst hjá annarri stofnun og síðan hinni og þá ekki fengið þá þjónustu og þann stuðning sem þau hefðu þurft á að halda. Við vitum að það skiptir sköpum fyrir þessi börn að fá þjónustuna snemma. Ég vil því fagna því að þessi mál verði forgangsmál og það verður gripið til aðgerða strax hvað þau varðar.

Hér er líka fjallað um aðgerðir í þágu barna og ungmenna með hegðunarerfiðleika og í vímuefnavanda sem er náttúrlega stórt mál. Því miður hef ég ekki tíma nú til að koma inn á það. Ég hefði gjarnan viljað ræða þó nokkuð um þann þátt mála og fagna því að þar á að taka vel á. Við þurfum að stytta vinnutíma foreldra til þess að þeir geti betur sinnt börnum sínum, lengja fæðingarorlofið og margt fleira sem fram kemur hér.

En ég vil óska okkur til hamingju með þetta fína plagg og þessa fínu þingsályktunartillögu og vonast til þess að hún verði að veruleika, sem flest atriði hennar, fljótt og vel, að minnsta kosti á þessu kjörtímabili.