134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:47]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði hér: Skilaboðin verða að vera hrein og skýr, ríkisstjórnin verður að sýna ábyrgð. Hvað rekur þessa ríkisstjórn til að leggja fram þessa þingsályktunartillögu? Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, þetta er ábyrg ríkisstjórn sem við erum með hér, en því miður hefur orðið velferðarhalli á undanförnum árum. Sá halli hefur bitnað á börnum og þess vegna þarf að rétta þann halla.

Hann verður að rétta, og þau skilaboð eru alveg skýr hjá þessari ríkisstjórn. Hún ætlar að taka málefni barna og ungmenna sérstaklega fyrir og rétta þann halla. Samfylkingin sem jafnaðarflokkur lagði áherslu á þetta í kosningabaráttunni. Því miður hefur ójöfnuður aukist og hann verður að rétta af og það erum við að gera með þessari þingsályktunartillögu. Við verðum að taka á þessum málum. Það er á okkar ábyrgð í þessari ríkisstjórn, og ríkisstjórnin hefur axlað þá ábyrgð. Það kemur fram í þessari þingsályktunartillögu hæstv. félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur.