134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:52]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í samgönguáætlunum eins og títt er að leggja fyrir og hefur verið hér á undanförnum árum eru tekjuáætlanir. Þetta eiga hv. þingmenn að vita. Í þessari þingsályktunartillögu er ekkert verið að gera annað en að binda hendur þingsins varðandi ríkisfjármálin (Gripið fram í.) umfram annað. Það er engin ástæða til að gera það. Við erum í kröppum dansi í efnahagsmálunum, mjög kröppum dansi. Öllum sem fjalla um það daglega ber saman um að við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér en við skulum vera viðbúin öllu. Það er mjög nauðsynlegt að þessi ríkisstjórn, svo ég ítreki það aftur og aftur, enn og aftur, hafi traust þjóðarinnar. Menn verða að hafa það á tilfinningunni, menn verða að vera þess fullvissir að sú hönd skjálfi ekki, sú hönd sé örugg sem heldur um stjórnvölinn, ríkisstjórnin sé örugg og henni megi treysta. Það eru skilaboðin sem eiga að vera og hljóma um landið allt.