134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[11:55]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi hv. þingmaður á enga heimtingu á að vita hvað gerist á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins. Þannig verður það áfram. Hún má treysta því að henni verði ekki trúað fyrir þeim hlutum.

Það er alveg skýrt, virðulegi forseti, og á að vera skýrt að það geti verið fullur stuðningur og fullur skilningur á því að auðvitað viljum við standa mjög vel að félagsmálum landsins. Auðvitað viljum við standa vel að málefnum barna og foreldra. Auðvitað viljum við standa mjög vel að öllum þeim þáttum, sérstaklega þar sem menn standa höllum fæti. Það dró enginn úr því að það væri fullur stuðningur í sjálfu sér við allt það sem hæstv. félagsmálaráðherra sagði. Ég var að gagnrýna framkvæmdina og ég ber þann ótta í brjósti að það gæti haft í för með sér röng skilaboð til þjóðarinnar á þeim tímum sem við lifum nú sem ég held að séu hættulegir. Þess vegna ber að fara varlega. Það er þetta sem ég er að tala um, ekkert annað, engin ástæða til að reyna að misskilja það á einn hátt eða annan.