134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[12:31]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við hlýddum á mál hv. nýs og upprennandi þingmanns og hún féll í þá gryfju sem ég var að vonast til að hún gerði sem síðast, að vera að hvetja menn eða krefjast þess að menn tjái sig um mál. Það hefur ekki verið ræðuskylda á hv. Alþingi en menn fylgjast með umræðum, bæði á skrifstofum og í sal og það hefur ekki verið ræðuskylda.

Ég bendi á að það frumvarp sem við ræðum hér er stjórnarfrumvarp. Það er lagt fram af allri stjórninni. Það er samþykkt í stjórnarflokkunum og það ætti að nægja hv. þingmanni.

Hún ræddi líka um fæðingarorlofið. Það hefur alltaf verið mér mikið áhugaefni vegna þess að ég lít á það sem hvata til jafnréttis kynjanna. Það er ekki endilega hugsað vegna barnanna þó að það sé aukaafurð af því frumvarpi eða þeim lögum. Þegar það frumvarp var lagt fram á sínum tíma og samþykkt þá fólst í því að gera karlmenn jafndýra atvinnulífinu og konur að þessu leyti. Það var meginmálið og mér finnst hv. þingmaður sjá þau lög þannig. Hins vegar er það rétt og ég hef margoft bent á varðandi stöðu barna, ef við lítum á heiminn frá sjónarhorni og með augum barnanna þá er tíminn frá um níu mánaða aldri og til þriggja ára aldurs dálítið undarlegur því mörg börn eru ekki tilbúin til að fara að heiman og út í heim á þeim aldri. Það er sá tími sem þau eru kannski mest önnum kafin við að mynda tengsl og kynnast veröldinni næst sér og ég vildi því gjarnan heyra sjónarmið hv. þingmanns hvað það varðar. En með foreldraorlofi, sveigjanlegum vinnumarkaði og ef foreldrarnir fengju bætur sem samsvari því sem það kostar að hafa börnin á barnaheimili þá væri hægt að leysa þetta mál algerlega.