134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[12:47]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er mér mikið ánægjuefni að koma hér upp af því tilefni að fá að ræða tillögu til þingsályktunar frá hæstv. félagsmálaráðherra um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna á Íslandi. Eftir þessu hef ég og við þingmenn Samfylkingarinnar og við samfylkingarfólk beðið lengi. Ástæðan fyrir því að við höfum beðið lengi eftir þessu er sú að þessum málaflokki hefur ekki verið sinnt hingað til, börnunum og barnafjölskyldunum hefur ekki verið sinnt með svo markvissum hætti sem þessi þingsályktunartillaga ber með sér að gert verði. Því fagna ég þessu mjög.

Ég fagnaði því líka þegar í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, nýrrar ríkisstjórnar, var kveðið jafnákveðið að orði hvað það varðaði að hér ætti að setja velferðarmál í forgang og þá ekki síst þau elstu og þau yngstu í samfélagi okkar. Þessu fagna ég mjög.

Virðulegi forseti. Það hefur verið þannig á Íslandi undanfarinn rúman áratug, og er í dag, mjög þungt að koma sér upp heimili. Það er mjög þungt að reka heimili með ungum börnum, húsnæðisverð hefur aldrei verið hærra, stuðningur við fólk sem er að kaupa sér húsnæði hefur verið skertur og það vitum við, vaxtabætur hafa verið skertar í tíð fráfarandi ríkisstjórnar. Barnabætur hafa sömuleiðis verið skertar verulega frá árinu 1995. Síðan vitum við að tannlæknakostnaður leggst alltaf æ þyngra á barnafjölskyldurnar. Það er orðið þungt og það er þungt að vera með börn í skóla. Á þessu er verið að taka hér.

Ég geri líka ráð fyrir því að sá niðurskurður sem verið hefur á vaxtabótunum hingað til verði stöðvaður og það verði tekið sérstaklega á í þeim málum þegar til þeirra kasta kemur þó að ekki sé kveðið á um það hér. Það er mjög stór hluti af því sem við þurfum að gera líka fyrir ungar barnafjölskyldur, þ.e. að skoða stuðninginn vegna húsnæðiskaupa.

Virðulegi forseti. Varðandi þessa tillögu til þingsályktunar vil ég eins og aðrir hér óska hæstv. ríkisstjórn og ekki síst félagsmálaráðherra til hamingju með að hafa núna tveim vikum eftir að ríkisstjórnin tók til starfa komið fram með þetta metnaðarfulla skjal. Það sýnir okkur líka hversu vel undirbúnir þessir stjórnarflokkar komu til samstarfsins að við gátum verið tilbúin með þetta mikilvæga skjal á ekki lengri tíma en raun ber vitni.

Varðandi það sem felst í þessu frumvarpi er, eins og ég nefndi áðan, fjölmargt sem leggst á eitt við það að þyngja róður barnafjölskyldnanna í þessu landi. Því fagna ég sérstaklega að í II. kafla eru sérstaklega aðgerðir nefndar sem eiga að bæta afkomu barnafólks og barnafjölskyldna. Er þar tekin til hækkun barnabóta tekjulágra fjölskyldna, og tannvernd barna verður bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaaðgerðum og auknum niðurgreiðslum. Síðan er tekið hér á stöðu nemenda í framhaldsskólum, það er verið að styðja fjölskyldur sem eru með börn á framhaldsskólastigi inni á heimilinu með því að nemendur í framhaldsskólunum muni njóta stuðnings til kaupa á bókum og öðrum námsgögnum. Þetta er mjög mikilvægt og sýnir okkur að sú ríkisstjórn sem er tekin við stjórn landsins skilur aðstæður barnafjölskyldna og sýnir það í verki tveim vikum eftir að hún tók við lyklavöldum í ráðuneytunum. Þetta þykir mér mikilvægt, þetta gleður mig og þetta gleður okkur jafnaðarmenn vegna þess að hér er það sýnt í verki tveim vikum eftir að ríkisstjórnin tekur við að hún skilur þær aðstæður sem barnafólk og barnafjölskyldur búa við.

Hér er tekið á fjölmörgum þáttum. Það sem mér finnst líka mikilvægt í þessari þingsályktunartillögu er að eitt af því fyrsta sem gera á er að skipa samráðshóp milli fulltrúa hinna ýmsu ráðuneyta. Það er mikilvægt þannig að við séum ekki að ganga á ráðuneytisveggi eins og virðist hafa tíðkast hingað til. Það er sérstaklega mikilvægt þegar á að fara að vinna á biðlistum í heilbrigðiskerfinu sem varða börnin. Það er einmitt það sem á að gera og í ályktuninni segir að það eigi þegar í stað að grípa til sérstakra aðgerða til að vinna á biðlistum eftir þjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og sömuleiðis að það eigi þegar í stað að grípa til sérstakra aðgerða til að vinna á biðlistum eftir þjónustu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Þetta er, virðulegi forseti, gríðarlega mikilvægt.

Aðeins að lokum, það er margt sem hægt er að segja þessari þingsályktunartillögu til hróss en þó vil ég taka hérna eitt sérstaklega út úr, fæðingarorlofið. Það er sérstakt ánægjuefni að í þessari þingsályktunartillögu sé það lagt skýrt fram að fæðingarorlof verði lengt í áföngum á kjörtímabilinu. Þetta tel ég gríðarlega mikilvægt en það er margt sem við þurfum að skoða samhliða þessari lengingu — og ég veit að hæstv. félagsmálaráðherra mun gera það — varðandi breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni. Vil ég nefna að mér hefur fundist að frá því að nýju fæðingarorlofslögin voru sett séu þau orðin of foreldramiðuð, þau miði of mikið við þarfir foreldranna en það er minni áhersla lögð á rétt barnsins. Til þessa þurfum við að taka tillit við endurskoðun þeirra laga og þar er kannski ekki síst horft til barna einstæðra foreldra. Þetta er nokkuð sem ég er sannfærð um að hæstv. félagsmálaráðherra mun skoða enda lagði hún á liðnu kjörtímabili ásamt þeirri sem hér stendur fram frumvarp þar sem tekið var á þeim málum. Ég er sannfærð um að það mun koma inn enda er það mikilvægt og ég tel að útgangspunktur fæðingarorlofslaganna eigi að vera réttur barnanna. Þangað vil ég sjá að við færum áherslurnar.

Virðulegi forseti. Enn og aftur lýsi ég því yfir að það er virkilegt gleðiefni að standa hér með þetta mál í höndunum sem ég er sannfærð um og veit að muni verða að veruleika, hvert eitt og einasta atriði í því. Við þurfum núna að leggjast í þá vinnu að skila þessum verkefnum vel frá okkur þannig að þetta verði sem farsælast fyrir alla, börnin, foreldra þeirra og samfélagið í heild.