134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

Íbúðalánasjóður.

[13:30]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég kalla hér í dag til umræðunnar hæstv. félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Umræðuefni dagsins er mikilvægt og ég kalla eftir skýrum svörum hæstv. ráðherra.

Það hefur komið í ljós og komið fram að stjórnarflokkarnir eiga enn ósamið um mörg málefni í skiptingu á verkefnum milli ráðuneytanna. Þeir ætla að nota sumarið til þeirra verka, hafa þeir sagt hér. Framtíð Íbúðalánasjóðs, sem gegnir veigamiklu félagslegu hlutverki gagnvart öryggi og rétti fólksins í landinu, er í óvissu. Sögusagnir eru uppi um að samkomulag forustumanna stjórnarflokkanna sé í þá veru að forræði sjóðsins færist frá félagsmálaráðuneyti yfir í fjármálaráðuneyti. Sé svo er ætlunarverk ríkisstjórnarinnar skýrt. Þá er sjóðurinn með manni og mús, veðrétti í eignum fólksins, trúlega að fara í sölumeðferð. Þá hafa bankakerfið og mjög sterk öfl í Sjálfstæðisflokknum sitt fram í nýju ríkisstjórnarsamstarfi.

Er Íbúðalánasjóður á förum frá hæstv. félagsmálaráðherra yfir í fjármálaráðuneytið? Ég spyr hæstv. ráðherra og geri kröfu um skýr svör.

Það hefur komið fram í átökum við þá aðila sem vilja ryðja Íbúðalánasjóði burt að þrátt fyrir það eru yfir 80% þjóðarinnar, 80% Íslendinga, þeirrar skoðunar að Íbúðalánasjóður eigi að starfa áfram og telja hann kjölfestu og öryggi sitt á markaðnum. Félag fasteignasala hefur lýst yfir stuðningi við það sama og telur Íbúðalánasjóð mjög mikilvægan eins og hann hefur verið byggður upp. Fólkið í landinu nýtur í dag bestu kjara á íbúðalánum sínum. Það að eiga húsnæði, þak yfir höfuðið á sér, er eitt grundvallaratriðið og eitt mesta velferðarmál hvers þjóðfélags.

Ég þekki auðvitað félagsleg viðhorf hæstv. félagsmálaráðherra og veit hvar skoðanir hennar eru í þessu máli. Hins vegar er þessi spurning: Um hvað samdi formaður Samfylkingarinnar við formann Sjálfstæðisflokksins sem ekki er enn þá ljóst gagnvart Íbúðalánasjóði?

Í Morgunblaðinu 27. maí sl. spyr blaðamaður Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hæstv. utanríkisráðherra, þessarar spurningar orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Af hverju stendur til að færa Íbúðalánasjóð undir fjármálaráðuneytið?“

Hæstv. utanríkisráðherra svarar:

„Það er ekki orðið að veruleika, þó að það sé í umræðunni.“

Það er mikilvægt markaðarins vegna að hæstv. félagsmálaráðherra gefi hér í dag afdráttarlaus svör. Um hvað eru ríkisstjórnarflokkarnir að véla hvað Íbúðalánasjóð varðar? Er sjóðurinn á förum til fjármálaráðuneytisins? Samfylkingin talaði, að ég hygg, skýrt í kosningabaráttunni.

Í aðdraganda kosninganna á Stöð 2 var svarið þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Samfylkingin telur að það eigi að standa vörð um Íbúðalánasjóð til að tryggja samkeppni á íbúðalánamarkaði og jafnan aðgang landsmanna að íbúðalánum.“

Skýr og afdráttarlaus svör fyrir kosningar. Hefur eitthvað breyst í bakherbergjum sem enn er ekki lýðum ljóst? Ég bið um skýrt svar hér frá hæstv. félagsmálaráðherra: Hver er staða þessara mála og hvar standa málefni Íbúðalánasjóðs? Er hann að fara í sölumeðferð? Er bankakerfið að ná sínu fram í gegnum annan stjórnmálaflokkinn sem stýrir ríkisstjórninni? Það er mikilvægt að hæstv. félagsmálaráðherra skýri hér frá þessu í dag: Hver er staða þessa mikilvæga sjóðs, Íbúðalánasjóðs fólksins í landinu?