134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

Íbúðalánasjóður.

[13:35]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það kemur mér ekki á óvart að málefni Íbúðalánasjóðs skuli tekið hér upp utan dagskrár en það hefur oftar en ekki blásið í kringum húsnæðismálin í landinu, bæði fyrr og síðar.

Íbúðalánasjóður gegnir lykilhlutverki í húsnæðismálum landsmanna og í mínum huga er mikilvægt að staðinn verði vörður um þennan sjóð. Það hefur verið og verður lykilhlutverk hans að jafna aðstöðu landsmanna í húsnæðismálum og stuðla að því að allir landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum óháð búsetu og efnahag. Mikilvægt hlutverk sjóðsins er einnig að veita fólki aðstoð sem er í greiðsluerfiðleikum, og ekki síst er það hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu félagslegra íbúða. Þessi lykilhlutverk Íbúðalánasjóðs vitum við að bankarnir munu ekki leysa út frá þeim jafnréttissjónarmiðum sem Íbúðalánasjóður byggir á og skoðun mín hefur ekkert breyst á því að Íbúðalánasjóður hefur gegnt veigamiklu hlutverki til að örva samkeppni með innkomu bankanna á húsnæðismarkaðinn árið 2004.

Hitt er svo annað mál að ég hef af því áhyggjur að á undaförnum árum hefur mjög dregið úr hinu félagslega hlutverki sjóðsins. Má segja að félagslegi hluti húsnæðiskerfisins hafi nánast verið lagður af á árinu 1997 þegar félagslega eignaríbúðakerfinu var lokað. Það hefur bitnað mjög á þeim sem minnst hafa og eru ofurseldir leigumarkaðnum. Á því verður að taka því að við getum ekki boðið fátæku fólki að leigja tveggja herbergja íbúð fyrir 70–90 þús. kr. eða borga 90–120 þús. kr. eða þaðan af meira fyrir þriggja herbergja íbúð. Það eru kannski 75% af launum þessa fólks sem fara í húsaleigu.

Þann stutta tíma sem ég hef nú verið ráðherra er beinlínis átakanlegt hve margir hafa komið í viðtöl til mín og eru hreinlega á barmi örvæntingar, á götunni og eiga hvergi höfði sínu að að halla. Engar lausnir eru til, bara langir biðlistar eftir leiguhúsnæði sem telja sennilega 1.700–1.800 manns. Þetta er óviðunandi staða og allir hljóta að hafa áhyggjur af henni. Það hlýtur að vera sameiginlegt verkefni ríkis, sveitarfélaga og verkalýðshreyfingarinnar að snúa þessari þróun við en það er skylda stjórnvalda á hverjum tíma að leita leiða til að lækka kostnað almennings, ekki síst tekjulágra fjölskyldna, við að eignast öruggt húsnæði.

Ég undrast mjög þær yfirlýsingar sem komið hafa frá Samtökum atvinnulífsins um Íbúðalánasjóð. Það er erfitt að finna því stað eins og forsvarsmenn þeirra halda fram að Íbúðalánasjóður hafi verið leiðandi í því að skapa hér verðbólguþrýsting sem við búum nú við eða að hann hafi orðið til að auka verðbólgu. Ég vara við svona stóryrðum eins og að tala um herfileg hagstjórnarmistök varðandi lánshlutfall og hámarksfjárhæðir sjóðsins eða að tala um þennan sjóð, sem skiptir máli fyrir fólkið, sem skaðvald á íbúðalánamarkaði.

Það er afar sérstætt að verðbólga eða þensla er sjaldan sett í samhengi við útlánaþenslu bankanna. Hlutdeild bankanna á íbúðalánamarkaði hefur þó verið nálægt 60% frá árinu 2005 en Íbúðalánasjóðs nálægt 33% og lífeyrissjóðanna 9%. Þessu til viðbótar jukust lán bankakerfisins til heimilanna í erlendri mynt um 25,9 milljarða í febrúar og mars sl. Á sama tíma veittu bankarnir auk þess íbúðalán í íslenskum krónum að fjárhæð 8 milljarða kr. eða samtals nærri 34 milljarða, en heildarútlán Íbúðalánasjóðs voru 9,3 milljarðar á sama tíma. Ef lánafyrirgreiðsla til heimilanna er helsti orsakavaldur verðbólgu og ógnar hér stöðugleikanum eins og forsvarsmenn atvinnulífsins halda fram væri þá ekki rétt að skoða heildarmyndina í lánveitingum til húsnæðismála en ekki hengja bara bakara fyrir smið?

Lánveitingar frá Íbúðalánasjóði eru iðulega ekki nema 55–60% af verði íbúða vegna viðmiðunar lána við brunabótamat. Það er fyrst og fremst fólk á landsbyggðinni sem hefur nýtt sér 90% lánshlutfall og nauðsynlegt er í því sambandi að halda til haga að þar gætir tregðu hjá bönkunum við að lána til ýmissa staða á landsbyggðinni. Ég hef enn ekki séð neina fylgni milli þess að lánshlutfall Íbúðalánasjóðs hafi hækkað í 90% og aukinnar verðbólgu. Húsnæðisþáttur vísitölunnar hefur t.d. minnkað frá því að lánshlutfallið var hækkað og hlutur húsnæðiskostnaðar í neysluvísitölunni lækkað úr 0,6% í janúar í 0,4% eftir að lánshlutfallið var hækkað í mars í 90%. Í apríl sl. var breytingin einungis 0,1% vegna breytinganna í aprílmánuði.

Eins og fyrirspyrjanda og öðrum hv. þingmönnum er fullkunngt um er hvorki fjallað um að breytingar verði gerðar á framtíðarhlutverki Íbúðalánasjóðs né stöðu hans í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Engin ákvörðun hefur verið tekin eða liggur fyrir milli stjórnarflokkanna um breytingar á sjóðnum. Það liggur heldur ekki fyrir neitt samkomulag um að stjórnarflokkarnir ræði ekki sín á milli um Íbúðalánasjóð eins og önnur viðfangsefni í stjórnsýslunni, þótt ekki væri nema vegna þess að við verðum að virða þær leikreglur og alþjóðaskuldbindingar sem við höfum undirgengist. ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur nú til umfjöllunar álitamál varðandi starfsemi Íbúðalánasjóðs og reglur EES-samningsins um ríkisábyrgð og er að vænta niðurstöðu í því máli síðar á þessu ári. Íslensk stjórnvöld þurfa að sjálfsögðu að taka tillit til þeirrar niðurstöðu og bregðast við á vandaðan hátt.