134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

Íbúðalánasjóður.

[13:42]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er einkennilegt hvað heimurinn hefur breyst, a.m.k. frá sjónarhóli hv. þm. Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, frá 12. maí. Allt í einu er ég orðinn hættulegur maður og af því að það hefur komið til umræðu á milli formanna stjórnarflokkanna að forsvar færist á milli ráðuneyta er framtíð Íbúðalánasjóðs í óvissu.

Staðreyndin er sú að framtíð Íbúðalánasjóðs er búin að vera í óvissu í mörg ár, þótt ekki væri nema bara vegna þess kærumáls sem er í gangi hjá ESA sem íslensku bankarnir fóru með þangað og þeirra umsagna sem þaðan hafa komið. Þrír ágætir félagsmálaráðherrar Framsóknarflokksins hafa unnið með mér í þann tíma sem ég hef verið fjármálaráðherra við að útfæra breytingar á sjóðnum. Það hefur allt verið gert í hinu mesta bróðerni og á öllum þeim málefnalegu forsendum sem hægt er að hugsa sér í þeim efnum. Þeirri vinnu var einfaldlega ekki lokið þegar kom að kosningum.

Nú er þetta allt saman orðið stórhættulegt og ég alveg sérstaklega hættulegur þessum sjóði. Ég held að við þurfum aðeins að gæta að okkur í umræðu eins og þessari því að eins og kom fram hjá hæstv. félagsmálaráðherra er Íbúðalánasjóður afskaplega mikilvæg fjármálastofnun hjá íslensku þjóðinni. Við þurfum að gæta okkar í umræðunni og þegar við gerum breytingar þurfum við að gæta þess hvernig að þeim er staðið. Þá er það grundvallaratriði að við náum um það góðri samstöðu milli flokkanna hér á Alþingi og við þá aðila á markaði sem eru að vinna á svipuðum nótum og sérstaklega auðvitað að hagsmunir viðskiptavina sjóðsins séu tryggðir. Þá er það ekki aðalatriðið í hvaða ráðuneyti stofnunin sorterast heldur hvernig að verki er staðið en ég geri ráð (Forseti hringir.) fyrir því að áfram verði rætt um það á milli formannanna hvernig Íbúðalánasjóði ásamt öðrum stofnunum, frú forseti, verði ráðstafað á næstu mánuðum.