134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:05]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Það var frækilegt verk hjá hæstv. félagsmálaráðherra að ná saman þessari tillögu til þingsályktunar til að styrkja stöðu barna og ungmenna hér á landi strax í upphafi þessa kjörtímabils þegar einungis eru liðnar tvær vikur frá myndun nýrrar ríkisstjórnar. Þessi aðgerðaáætlun kemur inn á mörg svið og málaflokka margra ráðuneyta þannig að það var ekki einfalt mál að koma svo yfirgripsmikilli og vandaðri áætlun fram sem raunin varð þegar þessi áætlun leit dagsins ljós. Hafði ég talsverðar væntingar til málsins og var viss um að bitastæð aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna kæmi frá hæstv. félagsmálaráðherra. Raunin varð nákvæmlega sú nema hvað áætlunin er framar björtustu vonum held ég að óhætt sé að fullyrða þegar farið er yfir efni þessarar áætlunar.

Það er óhætt að binda miklar vonir við störf þessa samráðshóps, fulltrúa þessara mörgu ráðuneyta sem lagt er til að verði skipaður til að stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerðanna. Það skiptir náttúrlega öllu máli, frú forseti, að fylgja aðgerðaáætluninni fast eftir þannig að þau brýnu mál sem snerta öll börn og ungmenni á Íslandi nái fram að ganga. Á þeim fáu mínútum sem ég hef í minni fyrri ræðu í þessu brýna máli ætla ég rétt að nefna örfá þeirra sem ég tel skipta mjög miklu máli að nái mjög hratt fram að ganga til að bæta aðstæður og aðbúnað barna á Íslandi. Það má sérstaklega byrja á því að nefna hækkun barnabótanna. Þær skipta tekjulágar fjölskyldur á Íslandi verulega miklu máli. Við vitum það og höfum rætt oft í þinginu og víðar í samfélaginu á undanförnum missirum að stéttaskipting hefur aukist á Íslandi. Það er miklu meira bil en nokkurn tíma áður á milli þeirra sem hafa mestar tekjurnar og svo aftur þeirra sem hafa lægstar tekjurnar. Hvar kemur stéttaskiptingin skýrast fram? Nákvæmlega, hjá börnunum. Þar er aðbúnaðarmunurinn hvað mest áberandi, þ.e. hjá börnunum strax í leikskóla og grunnskóla.

Eitt af þeim stefnumiðum sem við eigum að reyna að ná fram á næstu árum í samstarfi við sveitarfélögin í landinu með því að efla tekjustofna þeirra er að koma á gjaldfrjálsum leikskóla. Það er gífurlega brýnt mál til að jafna aðstöðu allra barna og fjölskyldna þeirra til þess að börnin fái notið skólagöngu alveg frá fyrstu árum óháð efnahag foreldra. Gjaldfrjáls leikskóli og leikskóli fyrir öll börn frá eins árs aldri skiptir gífurlega miklu máli.

Það er oft talað um að stéttaskiptinguna í samfélaginu megi lesa utan á börnum, klæðaburði, holdafari, tannheilsu o.s.frv. Á þessu þarf að vinna bug og þess vegna er talað hérna sérstaklega um að tryggja forvarnaaðgerðir með niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna og þá er sérstaklega mikilvægt að tryggja gjaldfrjálsan skóla alveg frá leikskóla, upp í gegnum grunnskólann og inn í framhaldsskólann. Þá er ég sérstaklega að tala um námsefni og mat barna í grunnskólum, að öll íslensk börn hafi aðgang að heitum mat í skólanum sínum skiptir verulega miklu máli til að bæta aðstæður allra barna burt séð frá efnahag foreldra. Það er gjaldfrjáls skóli þar sem þetta er tryggt.

Eitt af því sem ég var hvað ánægðastur með að náði inn í þessa áætlun var, eins og segir í 3. lið II. kafla: „Nemendur í framhaldsskólum skulu njóta stuðnings til kaupa á bókum og öðrum námsgögnum.“ Samfylkingin lagði það fram sem eitt af sínum stefnumiðum fyrir kosningar að námsefni í framhaldsskólum yrði niðurgreitt að verulegu leyti eða gjaldfrjálst með tímanum. Það skiptir mjög miklu máli til að hvetja íslensk ungmenni til að stunda framhaldsskólanám og helst að ljúka því. Við eigum heimsmet í brottfalli úr framhaldsskólum. Það er eitt af alvarlegu vandamálunum í skólakerfi okkar, brottfallið úr framhaldsskólunum, og fyrir því eru margar ástæður. Við getum unnið mjög að því að brottfallið minnki mjög verulega og verði það sem við þekkjum t.d. frá Svíþjóð þar sem 95% ungmenna ljúka framhaldsskólanámi sem væri hið eðlilega. Það ætti að vera normið að ungmennin ljúki framhaldsskólanum. Það ætti að vera jafnmikið norm og að þau ljúki grunnskólanámi. Þetta er eitt af þessu sem við þurfum að gera, niðurgreiða námsefnið og koma í veg fyrir að börn sem finna sig ekki í framhaldsskólanum falli brott áður en þau ljúka formlegu námi.

Það þarf að sjálfsögðu að gera margt annað að auki. Það þarf að skoða aftur skörun á milli skólastiga. Í fréttunum í gær var viðtal við skólastjóra Fjölbrautaskólans í Garðabæ þar sem skólunum var álasað fyrir að velja börnin inn eftir einkunnum og fullyrt að þau sem væru með lægstu einkunnirnar ættu torveldast með að fá aðgang að nokkrum skóla. Þetta byggir upp brottfallsnemendur strax í upphafi. Við þurfum að skoða þetta allt saman og bæta aðstæður barna og ungmenna til að stunda nám almennt. Það skiptir mestu máli að öll íslensk börn og ungmenni fari með farsæld og nokkurri ánægju í gegnum skólakerfið allt, njóti þess að vera í skólanum, njóti þess að læra og finni þar nám við hæfi. Þess vegna eigum við að leggja miklu meiri áherslu á listgreinar, verkgreinar, verklega þætti, hverfa frá þessari þröngu bóknámsviðmiðun við 2–3 greinar. Við eigum að leggja af samræmd lokapróf í grunnskólum og gera mjög róttækar breytingar á menntakerfinu þannig að börnin eigi sem greiðasta og ánægjulegasta leið í gegnum menntakerfið allt, alveg frá gjaldfrjálsum leikskóla og upp í gegnum framhaldsskólann þar sem þau velja sér síðan sína leið, hvort sem er í verkmenntaskóla, frekari tæknimenntun, háskóla eða annað. Þetta skiptir gífurlegu máli.

Annað sem ég vildi nefna er að hér eru aðgerðir í þágu barna og ungmenna með geðraskanir og þroskafrávik og í þágu langveikra barna. Það er mjög mikilvægur og brýnn kafli. Um árabil hafa biðlistarnir á BUGL verið ein af dapurlegri hliðum á íslensku samfélagi og íslenskri velferðarþjónustu. Biðlistana á BUGL má skýra með margvíslegum hætti. Það er sjálfsagt engin ein skýring á því og þær skipta nú í sjálfu sér ekki máli. Það skiptir mestu máli að vinna á þessum biðlistum og tryggja að öll börn með geðraskanir fái greiningu strax og meðferð við veikindum sínum, alveg eins og barn sem handleggsbrotnar, barn sem botnlanginn springur í eða barn sem veikist á annan hátt líkamlega. Börn með andlega og geðræna kvilla verða að fá strax greiningu og meðhöndlun á veikindum sínum sem eru ekki á neinn hátt í sjálfu sér frábrugðin öðrum eða líkamlegri veikindum sem okkur mundi aldrei detta í hug að fresta í marga mánuði að meðhöndla og lækna. Þetta eru börnin sem verða út undan í samfélaginu og þetta eru börnin sem okkur ber að gæta sérstaklega að og rétta hjálparhönd til að koma þeim til fullrar heilsu og þátttöku í lífinu, fullrar þátttöku í skóla. Þetta eru börnin sem eru langlíklegust til að falla brott og hætta löngu áður en skólagöngu þeirra lýkur eða þau hafa lokið við að þroska hæfileika sína og mennta sig. Þessi þingsályktunartillaga til að styrkja stöðu barna og ungmenna á Íslandi er sérstakt fagnaðarefni.