134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[14:15]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta prýðilega andsvar. Það var málefnalegt og átti fullan rétt á sér af því að þetta er eitt af því sem við þurfum að gera. Þetta er eitt af því sem við, mjög margir landsbyggðarþingmenn, örugglega allra flokkanna, fjölluðum um í einhverri mynd í kosningabaráttunni á nýliðnu vori, þetta er eitt af því sem skiptir fólkið úti á landi miklu máli. Til að jafna og efla aðgang ungmenna af landsbyggð að námi þarf að jafna námskostnaðinn verulega og hækka jöfnunarstyrkinn. Þetta er eitt af því sem við ætlum að gera á kjörtímabilinu og mun koma til framkvæmda. Hvort það hefði átt heima akkúrat hér í þessari ályktun má nefnilega vel vera. Þetta er fyrri umræða um þessa ályktun, nú fer hún inn í nefnd og fer sína leið í þinginu þannig að við munum bara skoða það hvort við tökum það inn í þessa áætlun eða ekki. En við stefnum að því að jafna námskostnað nemenda með því að hækka jöfnunarstyrkinn á þessu kjörtímabili. Hvort sem það verður núna strax eða síðar á kjörtímabilinu stefnum við að því.

Það segir hérna í 3. lið II. kafla, eins og ég nefndi áðan, með leyfi forseta:

„Nemendur í framhaldsskólum skulu njóta stuðnings til kaupa á bókum og öðrum námsgögnum.“

Það er liður til að bæta námsaðstöðu allra framhaldsskólanemenda, allra íslenskra ungmenna til framhaldsskólamenntunar. Það er svo sérstakt mál að skoða hitt sem hv. þingmaður nefndi, að hækka jöfnunarstyrkinn fyrir þá sem eru úti á landi. Ég tel að svo eigi að gera og ég er sannfærður um að það muni koma til framkvæmda á þessu kjörtímabili.