134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:03]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég gleðst yfir þeirri yfirlýsingu hv. þingmanns að hann sé hvorki dapur né hnugginn. Ég er ánægður ef Framsóknarflokkurinn er ánægður en mér sýnist hann ekki ganga gunnreifur til stjórnarandstöðunnar.

Hv. þingmaður ætti að gera sér grein fyrir því að hann er að tala við vanan mann. Ef menn vilja ná árangri í stjórnarandstöðu þurfa þeir að vera málefnalegir og þeir þurfa að muna hvað þeir hafa sagt. Hv. þingmaður kom hér og það liðu svona tvær mínútur á milli þess sem hann sagði, annars vegar að það vantaði hluti sem kosta hundruð milljóna jafnvel milljarða inn í þessa tillögu en þegar hann kom tveimur mínútum seinna sagði hann að það væri svo svakalega erfitt ástand fram undan að ekki væri hægt að hrinda þessu í framkvæmd.

Hvort er hv. þingmaður með eða á móti þessu? Hvort finnst honum að setja þurfi meiri peninga í þetta, samanber jöfnunarstyrkina, eða að fresta eigi þessu fram til haustsins eins og hann er að tala um?

Ég held bara að hv. þingmaður sé grútspældur yfir því að þessi ríkisstjórn kemur hér með mótaða stefnu (Forseti hringir.) og það er meira en Framsóknarflokknum tókst á löngum tíma.

Varðandi barnabæturnar, (Forseti hringir.) hv. þingmaður þekkir þær. Hann (Forseti hringir.) plokkaði 10 milljarða og hans flokkur af barnabótum í stjórnartíð sinni.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)