134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:06]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir J. Jónsson, 6. þm. Norðaust., slær hér úr og í í viðbrögðum sínum við aðgerðaáætluninni. Ætti ég sem nefndarformaður að leggja það til í nefndinni í dag að við frestum þessum málum öllum og byrjum upp á nýtt til að verja markaðinn í landinu? Eru barnamálin farin að kollsteypa fjármálamörkuðunum ef við gefum yfirlýsingar um að við ætlum að bæta hag barna í samfélaginu? Ég ætla að vona að það sé ekki svo og ég vona að hann meini þetta ekki þannig.

Það er einfaldlega svo að við erum að markera inn mál sem þurfa að fara í umræðu og skoðun í nefndum sem eiga að fara að vinna að undirbúningi að lagafrumvörpum með framsetningu um kostnað o.s.frv. á haustþinginu. Til þess að þetta frestist ekki fram á næsta ár eða enn þá lengur er verið að setja þetta í gang á sumarþinginu.

Það kom fram í ræðu minni áðan um þetta mál að það eru auðvitað töluvert mörg mál sem koma til síðar sem gætu tengst þessari aðgerðaáætlun eða málefnum barna almennt í landinu. Hv. þm. Birkir J. Jónsson nefnir hér réttilega jöfnun á námskostnaði. Það er mál sem meta þarf hvort fara á inn í þessa aðgerðaáætlun eða koma inn með öðrum hætti í tengslum við menntamálin. Jöfnun námskostnaðar er auðvitað stór pakki, sem m.a. var drepið á hér áðan, sem full ástæða er til að skoða betur í þinginu og er ætlunin að gera.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að jafna á aðstöðu í landinu, þ.e. að jafna stöðu nemenda óháð búsetu. Það er auðvitað mikilvægt að við tökum það mál upp og skoðum það. Hvort rétt er að fara með það inn á þessu stigi skulum við bara meta þegar við höldum fund í dag, þann fyrsta um þetta mál í félags- og tryggingamálanefnd.