134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:11]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er kannski grundvallarmisskilningur á milli mín og hv. þingmanns. Hæstv. ráðherrar, sem því miður sátu fæstir þessa umræðu í dag, hefðu getað stofnað til þessarar nefndar og skilað inn tillögum með haustinu, það þurfti ekki sérstaka þingsályktunartillögu til þess. En þetta er kannski bitamunur en ekki fjár.

Aðalmálið er, og gagnrýni mín snýr að því, að hér er í raun og veru um óútfylltan tékka að ræða. Það er mjög eðlilegt að við í stjórnarandstöðunni spyrjum hvað menn ætli að leggja mikla fjármuni til þessa málaflokks. Það eru málefnalegar spurningar en því miður hefur verið minna um málefnaleg svör og við verðum bara að búa við það. En við munum fá að sjá þessar tillögur á hausti komanda sem vonandi verða þá fullfrágengnar ef marka má orð þess sem á undan talaði.