134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:17]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram um þessa tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Ég met það svo af þessari umræðu að áætlunin geti átt greiða leið í gegnum þingið þó að ýmislegt hafi komið fram sem þingmenn eru að kalla eftir svörum við.

Ég vil segja varðandi hv. þm. Birki J. Jónsson sem hafði allt á hornum sér, fannst mér a.m.k. í síðari ræðu hans, og taldi að allt væri komið í háaloft í ríkisstjórninni að þótt einn þingmaður í stjórnarliðinu hafi ekki sagst styðja þessa áætlun get ég fullvissað hv. þingmann um að það er mjög góð samstaða í þingflokknum um tillöguna. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lagði það svo út að við værum með þessa tillögu í upphafi samstarfs okkar af því að við treystum ekki Sjálfstæðisflokknum og þess vegna hefðum við lagt til þessa aðgerðaáætlun. Það er auðvitað alrangt. Það er ekkert sem hefur komið fram í samstarfi þessara flokka hingað til sem gefur mér tilefni til að ætla að sjálfstæðismönnum sé ekki full alvara með þessari aðgerðaáætlun og muni ekki framfylgja henni af áhuga eins og við í Samfylkingunni. Ég veit að hv. þingmanni liggur á að sjá ýmislegt af þessu koma til framkvæmda. Framsóknarflokkurinn var í ríkisstjórn í 12 ár án þess að aðgerðaáætlun um málefni barna og ungmenna sæi dagsins ljós. Þó var það svo, eins og hv. þm. Birkir J. Jónsson veit, að samþykkt var á Alþingi að mínu frumkvæði — og þingmenn úr öllum flokkum stóðu að þeirri áætlun — að gerð yrði heildarstefnumótun og aðgerðaáætlun í málefnum barna og ungmenna. Þáverandi formaður Framsóknarflokksins var t.d. í forsæti í ríkisstjórn sem átti að framkvæma þessa áætlun og Framsóknarflokknum dugðu ekki 12 ár til að koma slíkri tillögu til framkvæmda eða hingað inn í þingið. Þessi ríkisstjórn hefur starfað í mjög stuttan tíma, kannski hálfan mánuð, og samt er komin á borð þingmanna aðgerðaáætlun í málefnum barna.

Ýmislegt hefur komið fram sem ástæða er til að svara. Ég skil vel að þingmenn kalli eftir kostnaðaráætlun að því er varðar þessa aðgerðaáætlun en hv. þingmenn verða þá að hafa í huga að það er ekki vaninn að þingsályktunum fylgi endilega kostnaðaráætlun frá fjármálaráðuneytinu. Við höfum sagt það hér, og hæstv. fjármálaráðherra hefur tekið undir það, að þarna er ekkert sem segir að ekki sé hægt að standa við það á kjörtímabilinu sem þarna kemur fram. Eftir því sem málunum vindur fram mun eðlilega fylgja kostnaðarmat öllum frumvörpum sem hér koma fram. Hvaða mál verða sett í forgang í þessari áætlun ræðst nokkuð af því hversu fljótlegt verður að hrinda málunum í framkvæmd og líka auðvitað út frá kostnaði ýmissa tillagna sem hér á að hrinda í framkvæmd á hverjum tíma fyrir sig. Mikilvægur vettvangur til að skoða forganginn í þessu er sá samráðsvettvangur milli ráðuneytanna sem verður settur af stað milli fimm ráðuneyta sem hefur það verkefni að fylgja tillögunni eftir og samræma aðgerðir. Þetta verða þingmenn að láta sér duga að því er þetta varðar. Það er ekki hægt að kostnaðarmeta sumar af þessum tillögum vegna þess að ekki liggur fyrir endanleg útfærsla á þeim eins og varðandi barnabæturnar. Það er hægt að fara í einhverja nálgun um þetta að því er varðar fæðingarorlofið. Við erum að tala um að þegar fæðingarorlof er að fullu komið til framkvæmda í 12 mánuði verður það vitaskuld 12 mánuðir og við erum ekki tala um, eins og bæði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði og að mig minnir líka hv. þm. Birkir J. Jónsson, 12 mánaða fæðingarorlof innan þess fjárhagsramma sem nú er. Auðvitað erum við ekki að tala um það. Við erum að tala um að lengja fæðingarorlofið með eðlilegum hætti þannig að þetta verða allt viðbætur, þessir 12 mánuðir, en ekki að með einum eða öðrum hætti sé dregið úr greiðslunum. Ég held að það verði að vera nokkuð ljóst.

Varðandi þær 10 millj. sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson talaði um varðandi barnabæturnar sjá allir í hendi sér að við getum ekki bætt vanrækslusyndir fyrrverandi ríkisstjórnar varðandi barnabæturnar í einu vetfangi, það er alveg ljóst að við erum ekki að tala um það. Þegar spurt er af hverju ekki séu skattleysismörk hérna inni o.s.frv. er það svo að við ætlum ekki að setja allt það sem ríkisstjórnin ætlar að framkvæma á kjörtímabilinu inn í þessa aðgerðaáætlun, t.d. varðandi skattamálin af því að spurt var um skattleysismörkin. Það kemur fram í stjórnarsáttmálanum að stefnt er að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu, m.a. með hækkun persónuafsláttar, og ríkisstjórnin vinnur að endurskoðun á skattkerfi og almannatryggingum til að bæta hag lágtekjufólks og millitekjufólks. Þetta á alveg eftir að útfæra, þetta snýr að skattahliðinni og m.a. skattleysismörkunum sem verða þá skoðuð í samræmi við það sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir beindi til mín nokkrum spurningum og talaði um aðkomu sveitarfélaganna að þessari aðgerðaáætlun. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að sumt þarna snýr að sveitarfélögunum eðli málsins samkvæmt. Við erum að tala um heildstæða stefnumótun í þessu máli en ég minni á að í þessari tillögu er talað um að það verði á samráðsvettvangi ríkis, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga að móta tillögur um aðgerðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Þjónusta við barnafjölskyldur er að miklu leyti á vettvangi sveitarstjórnanna og þar erum við að tala um aðkomu sveitarfélaganna að máli. Af sjálfu leiðir, og í gildi er ákveðinn samstarfssáttmáli milli ríkis og sveitarfélaganna og allt verður þetta skoðað með hliðsjón af honum.

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði um ókeypis leikskóla. Það er stórt og viðamikið dæmi sem snýr náttúrlega mjög mikið að sveitarfélögunum en ég er alveg sammála hv. þingmanni um að við hljótum öll að stefna að því markmiði og það verður ekki gert í einu vetfangi að brúa það bil sem er á milli þess að fæðingarorlofi lýkur og þar til börnin fá inni á leikskólum. Við erum vissulega að stíga skref í þá átt með lengingu á fæðingarorlofi og ég teldi ekkert ólíklegt að eitthvað slíkt kæmi upp á samráðsvettvangi ríkis og sveitarfélaga að ræða þau mál. Þetta er stórt mál sem snýr að verulegu leyti að sveitarfélögunum og þess vegna er það ekki sett inn í þennan sáttmála með þeim hætti sem hv. þingmaður var kannski að kalla eftir.

Ég tek alveg undir með hv. þm. Álfheiði Ingadóttur varðandi störf umönnunarstétta. Við getum ekki aukið þjónustu við börnin og ungmennin, og kannski á fleiri sviðum eins og við erum að tala um aldraða, nema fara í það stóra mál að skoða hvernig hægt sé að endurmeta störf umönnunarstéttanna. Það er stórt og viðamikið mál og stór hluti af velferðarsamfélagi okkar að við getum farið í að endurmeta störf umönnunarstétta. Það er ekkert áhlaupaverk eins og menn vita.

Vegna þess að hérna situr fyrrverandi borgarstjóri minni ég á að hún réðst í það á vettvangi sveitarstjórnarstigsins í Reykjavík að hækka launin við umönnunarstéttirnar og þá ætlaði allt vitlaust að verða hjá sumum og allir töldu að verðbólgan mundi fara af stað. Það skeði auðvitað ekki. Ég heyri ekki þessa sömu menn sem höfðu hátt um það þá ræða eitthvað um að verðbólgan fari af stað þegar bankastjórarnir hækka núna laun sín í Seðlabankanum um 200 þús. á mánuði. Þá heyrist ekkert talað um að verðbólgan fari af stað. Ég held að þetta sé fyrst og fremst vilji sem þarf í því efni en að því máli þurfa að koma aðilar vinnumarkaðarins, ríki og sveitarfélag. Ríkið er stór atvinnurekandi í þessu máli að því er varðar umönnunarstéttirnar sem eru mikið hjá ríkinu. Það reynir auðvitað á vilja ríkisvaldsins í því efni að hafa forgöngu um það að störf umönnunarstétta verði endurmetin. Ég held að við komumst ekki hjá því að gera það með einum eða öðrum hætti á samráðsvettvangi þessara aðila sem ég nefndi. Við getum ekki rekið velferðarþjóðfélag okkar án þess að tekið verði á þessu máli. Það verður sjálfsagt að gerast í áföngum en við verðum að byrja einhvers staðar. Vandamálin blasa þegar við víða eins og í spítalakerfinu einmitt út af því hvernig laun umönnunarstéttanna eru metin í þjóðfélaginu og það er kannski eitt af þeim stóru verkefnum sem við þurfum að taka á.

Varðandi kostnaðinn, hann er töluverður. Við þurfum ekki annað en að skoða fæðingarorlofið. Við erum að tala um töluverðan kostnað en við erum líka að tala um að framfylgja þessu á kjörtímabilinu og innan þess svigrúms sem við höfum og þá er það auðvitað alltaf spurning um forgang. Hvað viljum við setja í forgang? Ætlum við að auka meira framkvæmdir til vegamála eða ætlum við að setja það svigrúm sem við höfum meira í það að bæta hag barnafjölskyldna og stöðu barnafólks og ungmenna í þessu samfélagi? Þetta er allt spurning um forgang. Ég segi það og held að allir hljóti að taka undir að það er líka dýrt fyrir samfélagið, fyrir ríkiskassann líka og fyrir fjölskyldur og samfélagið í heild, að búa ekki að börnum og ungmennum með þeim hætti að við getum talað um barnvænt samfélag vegna þess að þegar foreldrar þurfa bæði að vera á vinnumarkaðnum — ekki að þau vilji það, þau eru knúin til þess af því að framfærslukostnaðurinn er svo mikill — höfum við ákveðnar skyldur að búa þannig að börnunum og barnafjölskyldum að við getum verið sæmilega sátt. Það er kostnaðarsamt og dýrkeypt fyrir þjóðfélagið ef við hunsum þá skyldu okkar að búa vel að börnum og ungmennum. Hinum Norðurlandaþjóðunum hefur tekist það miklu betur en okkur og ég segi enn og aftur að þetta er auðvitað allt spurning um forgang. Eins og ég nefndi kannski verður það algjört forgangsverkefni sem verður farið í þegar í stað að útfæra með Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins af því að það snýr að mínu ráðuneyti. Síðan snýr barna- og unglingageðdeildin að hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég mun fara í mitt mál strax, og er þegar hafin vinna að því. Jafnvel þótt ekki sé búið að samþykkja þessa áætlun hef ég hafið undirbúning af því að mér finnst liggja lífið við að við tökum á þessum biðlistum á Greiningarstöðinni. Fyrir börnin á biðlistunum skiptir hver einasta vika og mánuður máli upp á að hægt sé að greina þau þannig að þau fái þá þjónustu sem þau þurfa í skólakerfinu svo það dæmi sé tekið. Að því þurfa margir aðilar að koma vegna þess að þegar eru margir aðilar sem koma að þessari greiningu, eins og ráðgjafarþjónusta sveitarfélaga, barnadeildir, heilsugæsla, sálfræðiþjónusta skóla og fleiri aðilar. Við þurfum að vinna þetta í samvinnu við fleiri aðila til þess að við náum sem mestum árangri. Hversu langan tíma það tekur að ná alveg niður biðlistum get ég ekki sagt en ég er að vona að við getum unnið á þeim þannig að við séum komin með enga biðlista innan tveggja ára. Það er von mín að hægt verði að framkvæma þetta með þeim hætti.

Ég sé að tíma mínum er að ljúka. Ég vil nefna varðandi það sem hv. þm. Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir nefndi þegar hún fór í kaflann um almennar forvarnaaðgerðir að nú er það þannig í þessari aðgerðaáætlun að gert er ráð fyrir að þessar framkvæmdir verði á vettvangi hvers fagráðherra fyrir sig. Forvarnirnar þarna heyra undir heilbrigðisráðherra, a.m.k. fram til áramóta, þannig að framkvæmdin mun fyrst um sinn vera í hans höndum. Vegna þess sem hv. þingmaður nefnir varðandi þann kafla sem snýr að áherslu á fræðslu um offitu og forvarnir gegn ofþyngd og bætt úrræði til meðferðar sem er mjög brýnt lýðheilsumál sem mikilvægt er að taka á og að aðgengi barna og ungmenna að hollum mat í leik og starfi verði aukið og að jafnræði ríki á milli barna að því er varðar aðgang að tómstundum, félagsstarfi, máltíðum í skólum o.s.frv. tel ég mjög mikilvægt að börnin geti fengið þetta óháð efnahag. Við erum samt enn og aftur að tala um að þarna skipta sveitarfélögin miklu máli og við þurfum að vinna þetta verk í fullri samvinnu við þau eins og gefur augaleið.

Ég held að ég hafi svarað flestum þeim spurningum sem til mín var beint og ég vona sannarlega að þetta mál fái umfjöllun í félagsmálanefnd með þeim hætti að við fáum tillöguna fljótlega aftur til þingsins og getum samþykkt hana áður en sumarþingi lýkur.