134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:41]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þessi málflutningur hálfskrýtinn hjá hv. þingmanni bæði nú og fyrr í umræðunni vegna þess að í öðru orðinu er verið að tala um að hér sé um svo kostnaðarsamar tillögur að ræða að þetta muni setja allt á annan endann en síðan er í annan stað verið að kalla eftir meiri útgjöldum eins og varðandi það brýna mál sem eru styrkveitingar til framhaldsskólanema. Ríkisstjórnin hefur ekki setið nema í 15 daga og mér finnst að hv. þingmaður eigi að gefa henni aðeins svigrúm til að sanna sig, m.a. hvort hún komi fram með það mál sem hv. þingmaður er að kalla eftir.

Síðasta ríkisstjórn sem Framsóknarflokkurinn átti sæti í hafði 12 ár til að gera ýmislegt sem ekki var gert eins og t.d. að setja fram aðgerðaáætlun sem við erum hér að fjalla um. Ég minni á að jafnréttisáætlun, sem þó var gerð fyrir einu ári og átti að vera aðgerðir gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, er bara ekki komin til framkvæmda. Ég var að skoða það í ráðuneyti mínu og það er lítið sem hefur komið til framkvæmda í þeirri áætlun og er ár síðan sú áætlun var sett fram. Mér finnst að hv. þingmaður eigi að sýna smáþolinmæði í því að við fáum meira en hálfan mánuð til að sýna að við ætlum að hrinda þessari aðgerðaáætlun í framkvæmd. Hv. þingmaður á ekki að draga það í efa fyrr en hann hefur ástæðu til þess. Við ætlum ekki að framkvæma þessa áætlun á einum mánuði. Við ætlum að framkvæma hana á kjörtímabilinu.

Af því að hv. þingmaður kallar svona stíft eftir kostnaðarmati á þingsályktun, sem er nú ekki vaninn að kostnaðargreina, þá spyr ég: Er til einhver kostnaðargreining varðandi þá ætlun sem liggur fyrir í byggðamálum, byggðaáætlun? Af hverju kallaði hv. þingmaður ekki á síðasta kjörtímabili eftir kostnaðargreiningunni að því er varðar byggðaáætlun? Liggur hún fyrir? Ég held að hv. þingmaður ætti bara að taka það rólega og sofa vært yfir því að við munum sjá til þess að umrædd aðgerðaáætlun mun komast til framkvæmda á kjörtímabilinu.