134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:44]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að verða við áskorun hæstv. ráðherra um að taka því rólega. Ég held að það sé mjög mikilvægt að sú stjórnarandstaða sem er hér á þingi veiti núverandi stjórn aðhald og ég vona að hæstv. ráðherra fari ekki að taka því rólega á þeim mánuðum sem fram undan eru, enda efast ég ekki um að ærinn starfa er að hafa í félagsmálaráðuneytinu.

Hins vegar var dálítið merkilegur tónn sem hæstv. ráðherra sendi núverandi félögum sínum í ríkisstjórninni sem átti aðild að ríkisstjórn með Framsóknarflokknum síðustu 12 ár. Það voru ekki hlýjar kveðjur en þetta er kannski í anda þess sem hefur viðgengist á þessum fyrstu tveimur vikum núverandi ríkisstjórnar að forustumenn flokkanna tala saman í fjölmiðlum. Þetta minnir dálítið á ástandið 1991–1995 og því fer þessi ríkisstjórn ekki neitt sérlega vel af stað. En hins vegar hef ég ekki neitt verið að slá út af borðinu einhverjar tillögur sem eru í þessu skjali. Það eru nefnilega engar kostnaðartillögur. Ég hef ekki slegið neitt út af borðinu. Það sem við höfum kallað eftir er hvað menn ætla sér að gera í málefnum barnabóta o.s.frv. Því miður eru engin svör en það hefur ekkert verið slegið út af borðinu, hæstv. forseti.