134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:46]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin sem hér komu varðandi athugasemdir mínar og spurningar. Ég sakna þess hins vegar að hafa ekki fengið svar við þeirri spurningu sem ég varpaði fram hvað varðar forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar og launin í samfélaginu. Í ljósi þess að við hæstv. ráðherra virðumst vera sammála um að brýna nauðsyn beri til að hækka laun umönnunarstétta, og kvennastéttanna sérstaklega, spurði ég hver afstaða hennar væri og hvort launahækkun til seðlabankastjóra upp á 200 þús. kr. á mánuði væri vísbending um forgangsmál í þessari ríkisstjórn.

Nú hefur það komið fram í máli ráðherrans. Í tvígang í dag hefur hæstv. ráðherra nefnt þessa breytingu og talað um Seðlabankann eins og Seðlabankinn væri eitthvað sem væri fyrir ofan — eða neðan — það sem við erum að fjalla um hér. Ég spyr, og bið ráðherra um að tala skýrt í þessum efnum vegna þess að það er bankaráð Seðlabankans sem ákvað þessa launahækkun og þar með fulltrúar Samfylkingarinnar í því sama bankaráði og reyndar beggja stjórnarflokkanna. Ég óska eftir skýrum svörum um afstöðu ráðherrans til þessarar launahækkunar seðlabankastjóra og afstöðu fulltrúa Samfylkingarinnar í bankaráði Seðlabankans þar um.