134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

12. mál
[15:48]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að afstaða mín til þessarar launahækkunar bankastjóranna í Seðlabankanum hafi komið alveg nægilega skýrt fram í máli mínu í dag. Ég held að enginn velkist í vafa um skoðun mína á henni. Mér finnst sú launahækkun sem þarna hefur komið fram ekki vera í samræmi við það sem Seðlabankinn gefur frá sér oft á ári um aðhald í útgjöldum, efnahagsmálum o.s.frv. Þetta er ekki lýsandi dæmi fyrir það þegar þeir svo sjálfir hækka laun sín um 200 þús. kr. á mánuði sem eru vel góð laun láglaunafólksins, kannski tvöfalt þau þannig að það eru ekki skýr skilaboð út í samfélagið varðandi t.d. þá kjarasamninga sem fram undan eru um næstu mánaðamót að þeir skammti sér slík laun. Þeir gera það í ljósi þess að þeir þurfi að halda í fólk o.s.frv. og þess vegna hafi launin verið hækkuð í Seðlabankanum.

Menn þurfa hins vegar líka að horfa út í samfélagið í heild. Af hverju er flótti úr þessum kvenna- og umönnunarstéttum þegar við búum ekki við atvinnuleysi? Það er vegna þess að launin eru svo lág að þau eru ekki samkeppnisfær við önnur laun í samfélaginu. Það er þó ekki á borði ríkisstjórnarinnar að ákvarða um launahækkanir eða launamál seðlabankastjóra. Afstaða mín er alveg skýr til þess, eins og hv. þingmaður heyrði, og ég fór ítarlega yfir afstöðu mína varðandi launakjör og störf umönnunarstéttanna. Ég tel brýnt ef við eigum að geta haldið uppi velferðarsamfélagi að endurmeta þau laun sem umönnunarstéttirnar búa við og það er ákvæði um það í stjórnarsáttmálanum.