134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[15:52]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um lagagildi sjötta viðaukasamnings við aðalsamning milli ríkisstjórnar Íslands og Alcan Holdings Switzerland um álbræðslu við Straumsvík.

Viðaukasamningurinn var undirritaður 5. mars sl. og með honum gerð sú breyting að allar sérreglur í aðalsamningnum um skatta og gjöld til ríkis og sveitarfélaga eru felldar niður og skýrlega kveðið á um að álbræðsluna í Straumsvík skuli skattleggja samkvæmt almennum reglum eins og þær eru á hverjum tíma. Gildistaka þessara breytinga miðast við 1. janúar 2005.

Aðalsamningurinn milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd. um álbræðsluna í Straumsvík var staðfestur á Alþingi með lögum nr. 76/1966. Við þann samning hafa síðan verið gerðir fimm viðaukasamningar sem hafa verið staðfestir af Alþingi. Í fimmta viðaukasamningnum sem var undirritaður þann 16. nóvember 1995 og veitt lagagildi með lögum nr. 155/1995 bættist við nýtt ákvæði, þ.e. grein 33.03 þar sem Ísal er heimilað, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að velja þann kost að lúta almennum íslenskum skattalögum. Þessa heimild nýtti félagið sér á árinu 2003 og í framhaldi af því hófust viðræður um það hvernig staðið skyldi að breytingunni. Þessar viðræður lágu niðri á tímabili en um sumarið 2006 var þráðurinn tekinn aftur upp og vinna hafin við gerð viðaukans sem lauk með undirritun hans þann 5. mars sl. Samningurinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki Alþingis, enda segir í 51. gr. aðalsamningsins að svo skuli gert. Í þessum samningsviðauka eru allar sérreglur og undanþágur um skatta og opinber gjöld sem gilda um starfsemi álversins í Straumsvík felldar út úr aðalsamningnum. Auk þess eru gerðar nokkrar smávægilegar breytingar á honum sem annaðhvort leiða beint af skatt- og gjaldabreytingunni eða snerta hana mjög.

Í fyrsta lagi verður sú grundvallarbreyting að öll ákvæði um framleiðslugjaldið eru felld út úr aðalsamningnum. Framleiðslugjaldið hefur Alcan greitt í stað tekjuskatts og fasteignaskatts og raunar fleiri skatta og gjalda sem nú hafa verið felld niður. Framleiðslugjaldið skiptist annars vegar í fyrir fram greitt framleiðslugjald sem félagið greiðir óháð afkomu, hins vegar afkomutengt framleiðslugjald sem er 33% af gjaldstofni. Í stað framleiðslugjaldsins er félaginu gert að greiða tekjuskatt og fasteignaskatt samkvæmt almennum reglum á hverjum tíma.

Í öðru lagi eru felldar brott allar sérreglur um tolla, aðflutnings- og útflutningsgjald og um virðisaukaskatt, og félaginu í staðinn gert að greiða þessi gjöld samkvæmt almennum reglum á hverjum tíma.

Í þriðja lagi eru felldar brott sérreglur um gjaldtöku fyrir höfn, hafnarmannvirki, leyfi til byggingar og reksturs bræðslunnar og félaginu gert að greiða þessi gjöld samkvæmt almennum reglum.

Í fjórða lagi er kveðið á um það að ágreining um málefni sem varðar hvers konar opinber gjöld skuli bera undir íslensk stjórnvöld og dómstóla eftir þeim reglum sem um slíkar deilur gilda. Með þessu er því vikið frá þeirri reglu sem gildir í aðalsamningum um að ágreining skuli bera undir gerðardóm.

Í fimmta lagi er kveðið sérstaklega á um það hvernig gera skuli upp fyrir þann tíma sem er liðinn, þ.e. frá 1. janúar 2005. Gengið er út frá því að viðkomandi stjórnvöld leiðrétti það sem leiðrétta þarf samkvæmt gildandi reglum á viðkomandi sviði. Þannig verði skattar lagðir á félagið af skattstjóranum í Reykjanesumdæmi gegn framlagningu skattframtals. Það er sérstaklega kveðið á um framtalsfresti og kærufresti enda eru þeir liðnir vegna rekstrar ársins 2005. Þá er líka gert ráð fyrir því að tollstjórinn í Reykjavík ákvarði tolla og Hafnarfjarðarbær fasteignaskatta. Hafnarfjarðarbær hefur á grundvelli sérstaks samkomulags við ríkissjóð fengið hluta af framleiðslugjaldinu. Sú hlutdeild hefur miðast við útflutt tonn af áli. Með undirritun sjötta viðauka er svo gengið út frá því að horfið verði frá þessari skiptingu enda miðar breytingin að því að fyrirtækið greiði alla skatta og öll gjöld samkvæmt almennum reglum.

Í sjötta lagi eru eins og áður segir gerðar nokkrar breytingar á aðalsamningnum sem tengjast skatt- og gjaldabreytingunni. Þannig eru t.d. sérreglur um meðferð gjaldeyris felldar út og ákvæði um aðferðir til að koma í veg fyrir tvísköttun færð til þess sem segja má að sé nútímahorf. Í stuttu máli má lýsa efni sjötta viðauka þannig að með honum séu allar sérreglur og allar undanþágur um skatta og gjöld felldar brott og í staðinn verði Alcan gert að fylgja almennum reglum eins og þær verða á hverjum tíma án nokkurra undantekninga.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnaðarnefndar.