134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:05]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í þessari sögukennslustund og söguskýringu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, að þar vantaði í eitt eða reyndar tvennt.

Það er vissulega rétt að þegar samið var við Alusuisse upphaflega voru þar ýmsar sérreglur og annað sem gilti. En samningurinn var a.m.k. frágenginn og öllum kunnur eins og hann þá var, m.a. orkuverðið. Engu að síður tel ég nauðsynlegt að rifja upp að þrátt fyrir þann skýra samning sem var öllum opinn þá treysti þetta stórfyrirtæki sér ekki á sínum tíma til þess að fara að leikreglum og stundaði stórfelld skattsvik sem kostuðu íslenska ríkið hundruð milljóna króna ef ekki milljarða á þeim tíma. Þau vinnubrögð eru þekkt undir heitinu „hækkun í hafi“. Fyrst menn fóru í söguna þá tel ég rétt að rifja upp þetta atriði.

Ég get tekið undir að það sé nauðsynlegt og rétt að hafa skýrar reglur. Ég tel miður að á sínum tíma verið tekin ákvörðun um að sveipa hulu raforkusamningana við Alusuisse og síðan Alcan, síðar Alcoa og alla þá samninga sem gerðir hafa verið síðan.

Ég hvet hv. þm. Sigurð Kára til að koma með okkur í Vinstri grænum í þá herferð að öll samskipti við þessi erlendu stórfyrirtæki verði skýr og einföld og þau lúti sömu reglum og samningar við innlenda aðila, m.a. um raforkukaup — þau verði opin öllum.