134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:07]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í raun þarf ekki að hafa mörg orð um frumvarpið sem hér liggur fyrir, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson orðaði það og þarf ekki að lengja umræðuna. Oft getur þó löng umræða orðið til að greiða að minnsta kosti flækjur í einstökum málum sem eru til umfjöllunar. Þær geta verið jákvæðar. En kannski er ekki sérstök ástæða til að hafa mörg orð um þetta frumvarp. Það er tiltölulega skýrt og gengur út á að laga samning ríkisstjórnar Íslands við Alcan að íslensku umhverfi. Kannski mætti segja að það sé löngu tímabært. Það er eðlilegt að stórfyrirtæki eins og hér er á ferðinni lúti íslenskum lögum í hvívetna.

Hins vegar er það svo að málið og fyrirtækið sem hér er um að ræða teygir anga sína víða og væri hægt að taka upp málefni þess á mjög víðum grunni. Það sem mig langar að nefna í þessari umræðu er í raun hver staðan er varðandi fyrirtækið sem við erum hér að tala um, þ.e. álverið í Straumsvík.

Eins og öllum er í fersku minni fór fram í marsmánuði síðastliðnum íbúakosning í Hafnarfirði þar sem afstaða var tekin til þess hvort íbúarnir vildu að álverið yrði stækkað, í samræmi við tillögu sem þar lá fyrir um það mál í tillögu að deiliskipulagi. Íbúarnir sögðu sína skoðun í þeirri atkvæðagreiðslu og höfnuðu þeirri stækkun. Ekki var liðinn langur tími frá þeirri niðurstöðu þegar við heyrðum í fjölmiðlum frá ýmsum málsmetandi aðilum að það gæti jafnvel orðið af stækkun álversins með einum eða öðrum hætti. Hugsanlegt væri að fara í þá stækkun án þess að breyta deiliskipulaginu sem hafnað hafði verið í íbúakosningunni. Ýmsa mátti jafnvel skilja á þann veg að hægt yrði að kjósa aftur um nýtt skipulag ef svo bæri undir. Þess vegna er áhugavert að heyra frá hæstv. iðnaðarráðherra hvernig hann metur stöðu þess máls í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið í kjölfar íbúakosninganna.

Ég vil líka nefna að eftir því sem ég best veit er Alcan samningsbundið til að kaupa orku sem var reiknuð fyrir umrædda stækkun frá 1. júlí næstkomandi. Gangi það ekki eftir þá lenda dagsektir á fyrirtækinu vegna vanefnda. Ég vildi þess vegna gjarnan heyra frá hæstv. iðnaðarráðherra hvort hann hafi skoðað það mál sérstaklega eða þekki það og hvert framhaldið verði á því. Auðvitað getur maður látið sér detta það í hug að Alcan reyni að komast undan þeim samningum og ákvæðum með því að flytja starfsemi sína eitthvað annað. Það er ekki óhugsandi. Sumir hafa nefnt Þorlákshöfn í því samhengi. Ég vildi þess vegna heyra frá hæstv. iðnaðarráðherra hvort hann hafi skoðað þetta mál sérstaklega.

Það var út af fyrir sig áhugaverð umræða hér fyrr í dag um álmál, orkusölumál og stóriðju, sem tengdist sérstaklega Helguvík. Það væri áhugavert að fara inn í það mál líka en í tengslum við það vöknuðu ýmsar spurningar og voru settar fram, m.a. til mín sem borgarfulltrúa í Reykjavík að því er varðar orkuöflun til stækkunar álvers á Grundartanga. Mér finnst rétt, af því ég stend í þessum ræðustóli núna og er að ræða mál er varða orkusölu og samninga til Straumsvíkur, að geta þess að afstaða mín til þess máls byggðist fyrst og fremst á því að á þeim tíma lágu fyrir allar heimildir fyrir stækkun álversins á Grundartanga. Þegar rætt var um hvernig afla ætti orku til þeirrar stækkunar, þá voru í raun tveir kostir í boði. Annars vegar að fara í Norðlingaölduveitu. Landsvirkjun hafði í huga að fara í Norðlingaölduveitu og afla orku til álversins við Grundartanga eða þá að þau mál yrðu leyst með því að Orkuveita Reykjavíkur kæmi inn í málið með orku frá Hellisheiði.

Á þeim tíma stóðum við frammi fyrir því vali að styðja að Orkuveita Reykjavíkur afhenti orku til stækkunar á Grundartanga en um leið töldum við, og höfðum sannfæringu fyrir því, að með því móti gætum við forðað því að farið yrði í Þjórsárver og að Norðlingaölduveita yrði að veruleika. Það er ástæðan fyrir því að við studdum það mál. Það eru málefnalegar forsendur fyrir því. Ég trúi því að hæstv. iðnaðarráðherra hefði valið með sama hætti ef hann hefði verið í þeim sporum.

Það kom líka fram í umræðunni fyrr í dag að ríkisstjórnin færi ekki inn í stjórnir orkufyrirtækjanna og segði þeim fyrir verkum. Ég verð nú að segja fyrir mína parta að ég tel að ríkisstjórnin, ef hún hefur ákveðna stefnu í þessu máli, eigi í það minnsta að ræða við orkufyrirtækin í landinu. Í framhaldi af þeim yfirlýsingum sem gefnar voru fyrir kosningar, einkum og sér í lagi af hálfu flokks hæstv. iðnaðarráðherra, og þess sem stendur í stjórnarsáttmálanum og þeirra orða sem hæstv. umhverfisráðherra lét falla í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra, þá hefðu þeir tveir ágætu ráðherrar, hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra, nánast á fyrsta degi í embætti átt að fara inn í orkufyrirtækin, ræða við forustumenn orkufyrirtækjanna, stjórnendur þeirra og segja: Hér er komin ný ríkisstjórn. Hún ætlar að hafa það sem forgangsatriði að vernda háhitasvæði landsins. Þannig væri tryggt að ekki verði farið í þessi stóru verkefni sem Helguvík er og stækkun í Straumsvík, ef af henni verður. Hvað veit ég um það?

Það er fróðlegt að rifja það upp að formaður Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra, hefur lýst því yfir á Alþingi, meðan hún var í stjórnarandstöðu, að mikilvægt væri að taka í taumana og fresta þeim stóriðjuframkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á næstu árum. Þar vísar hún til áforma um stækkunina í Straumsvík og álver í Helguvík. Þá kom fram sú afstaða núverandi hæstv. utanríkisráðherra og formanns Samfylkingarinnar að hennar afstaða væri sú að koma ætti í veg fyrir þessar álversframkvæmdir. Af þeim sökum finnst mér áhugavert að draga þetta fram. Við höfum einnig rætt málin að því varðar Helguvík í morgun og ekki komst allt að í þeirri stuttu umræðu sem gjarnan hefði mátt koma til skila.

Ég vil líka víkja að efnisatriði þessa samnings er varðar fjármál sveitarfélagsins Hafnarfjarðar. Ég veit raunar að hv. 2. þm. Suðvest. sem er í salnum þekkir þau mætavel. En það kom fram í umræðu þegar málið var hér til umfjöllunar fyrr í vetur, en það náði ekki afgreiðslu á þinginu, að sveitarfélagið Hafnarfjörður taldi sig verða af verulegum tekjum vegna tafa á því að þessi samningur öðlaðist gildi. Hér er gert ráð fyrir að hann gildi frá 1. janúar 2005, en upphaflega og ef allt hefði gengið eðlilega fyrir sig, miðað við það að fyrirtækið óskaði eftir þessum breytingum snemma á árinu 2003, hefði þessi breyting getað átt sér stað 1. janúar 2004, hafi ég skilið málið rétt. Samkvæmt þeim yfirlýsingum sem bæjarstjórinn í Hafnarfirði hefur látið frá sér í þessu samhengi þá telur hann að bærinn hafi orðið af um 100 millj. kr. tekjum vegna þess dráttar sem varð á staðfestingu málsins.

Það er auðvitað fróðlegt að vita, vegna þess að ég les í fjölmiðlaviðtölum við bæjarstjórann í Hafnarfirði, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar mun eftir sem áður reyna að láta á það reyna hvort bærinn getur náð þessum tekjum. Það væri fróðlegt að fá að vita það í þessu samhengi hvort það verður gert, hvort bæjarstjórn Hafnarfjarðar muni gera það og hvort bæjarstjórnin í Hafnarfirði fái liðsinni íslenska ríkisins, hæstv. iðnaðarráðherra, í því efni. Það er ekki tryggt með þeim samningi sem hér liggur fyrir, því lagafrumvarpi sem hér liggur fyrir.

Hæstv. forseti. Ég vildi koma þessu á framfæri í tengslum við umræðuna um þetta frumvarp. Ég tel að öðru leyti að ekki sé mikið um frumvarpið að segja, út af fyrir sig.