134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:20]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég lýsti því hvernig aðkoma okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í borgarstjórn Reykjavíkur var að málinu að því er varðar álverið á Grundartanga og hvaða staða var í málinu þar. Við höfum aldrei lýst því yfir að við séum á móti stóriðju bara af því að það er stóriðja. Við höfum sagt og barist gegn þeim virkjanaáformum til stóriðju sem hér hafa verið á undaförnum árum vegna þeirra umhverfisáhrifa og þeirra efnahags- og samfélagslegu áhrifa sem það hefur haft í för með sér. Það höfum við viljað taka með í dæmið. Á þessu byggðist afstaða okkar m.a. að því er varðar stækkunina á Grundartanga vegna þess að við vildum leggja okkar lóð á vogarskálina til að koma í veg fyrir að farið yrði inn í Þjórsárverin með Norðlingaölduveitu.

Síðan segir hæstv. ráðherra að hann muni ekki veita nein ný leyfi. Það sem ég held að geti verið fróðlegt að skoða í þessu samhengi er að það eru auðvitað ákveðin leyfi og það er orkusölusamningur í gangi hjá Alcan gagnvart Orkuveitu Reykjavíkur vegna Straumsvíkur. Ef það fyrirtæki ákveður t.d. að flytja sig um set þá er væntanlega verið að tala um að flytja þá samninga með sér á ný svæði og þá kemur væntanlega ekki til þess að úthluta nýjum leyfum ef ég hef skilið málið rétt. Ráðherrann getur auðvitað komið hér og sagt að hann muni ekki gefa nein ný leyfi inn á óröskuð svæði. En hvað þá með svæði sem þegar er byrjað að virkja og kalla hugsanlega á enn meiri orkuöflun á þeim svæðum? Við getum talað um svæði á Reykjanesi, á Hengilssvæðinu eða á Nesjavöllum þess vegna. Hvernig mun ráðherrann bregðast við því?