134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:32]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér koma sjálfstæðismenn í röðum í pontu og gefa skattkerfi íslensku ríkisstjórnarinnar, þeirrar sem Framsóknarflokkurinn sat í með Sjálfstæðisflokki, heilbrigðisvottorð til hægri og vinstri vegna hins góða skattkerfis sem þeir segja að við búum hér við.

Jú, mikið rétt. stóriðjufyrirtækið Alcan í Straumsvík hefur óskað eftir því frá 2003 að fá að greiða skatta hér á landi samkvæmt almennum íslenskum skattalögum. Í sjálfu sér er ekkert við það að athuga en það vekur auðvitað upp þær hugsanir hversu miklir fjármunir það eru sem íslenska ríkið og íslenskt samfélag og t.d. íslenskt velferðarkerfi hefur þurft að fara á mis frá árinu 1990 þegar verið var að gera þessa samninga og enn þá aftar í tíma. Það hljóta að vera orðnir gríðarlegir fjármunir þegar því er öllu safnað saman.

Maður spyr sig: Erum við í sjálfu sér stolt af því að hafa laðað til okkar erlenda fjárfesta sem komu hingað vegna auðlindanna okkar, orkuauðlindanna, og keyptu af okkur raforku á verði sem var til skammar og haldnar voru langar ræður um í þingsölum og verða jafnvel áfram ef áfram heldur sem horfir varðandi orkuverð í nýjustu orkusölusamningum til stóriðjufyrirtækjanna?

Hér er nú ekki allt sem sýnist og kannski ekki allt sem þarf að gleðjast yfir þó að engu að síður sé hægt að segja að íslenska skattkerfið sé þá þess eðlis að hver sem er geti fellt sig við það og það sé til skammar að stórfyrirtækin skyldu hafa fengið þær ívilnanir sem þau fengu á sínum tíma. Þar er ég sammála hv. þm. Pétri Blöndal og mig rekur minni til þess að flokksfélagi minn, hv. fyrrverandi þm. Hjörleifur Guttormsson hafi haldið hér æðimargar og æðilangar ræður um nákvæmlega þessa hluti, siðferðisbrest ríkisstjórnarinnar á þeim tíma sem þeir samningar sem við fjöllum um hér voru gerðir. Það er þó gott ef menn geta vitkast og áttað sig á að hlutir geti horft til betri vegar þegar skynsemin nær yfirhöndinni.

Það eru eflaust einhver álitaefni í þessum samningi, þeim viðauka sem hér er til umfjöllunar, með tilliti til annarra samninga við fyrirtækið. Þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal rifjar upp þau gjöld sem stóriðjufyrirtækið hefur verið undanþegið fram að þessu nefnir hann iðnaðargjald og einhver fleiri gjöld. Nú er ég ekki svo vel heima í því að ég viti hvort þessi gjöld eru enn innheimt eða ekki. (PHB: Jú.) Þau eru það, segir hv. þingmaður. En þá spyr maður sig: Greiðir þetta fyrirtæki þá ekki slík gjöld frá og með þessum breytingum? Nú eru hér álitaefni sem gera má ráð fyrir að verði skoðuð í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar og ég geri ráð fyrir að við fáum þá frekari fróðleik í því nefndaráliti sem lítur dagsins ljós að því nefndarstarfi loknu.

Mig langar til að gera að umræðuefni greinar sem Indriði H. Þorláksson skrifaði í Morgunblaðið í apríl síðastliðnum þar sem hann fjallar um auðlindir og arð. Þar talar hann í sjálfu sér tæpitungulaust um að arðsemi þess að selja orku til stóriðju sé afar lítil þar sem virðisaukinn sem verður til í landinu er afskaplega lítill og stóriðjufyrirtækin koma ár sinni ævinlega þannig fyrir borð að auðlindarentan verði ekki okkar, sem erum þó að selja þessum fyrirtækjum auðlindina okkar, heldur verði auðlindarentan eftir hjá hinum erlendu fyrirtækjum sem fara síðan með hana úr landi. Enn eru stórir siðferðisbrestir í stóriðjustefnunni sem eru fólgnir í því að við kunnum ekki fótum okkar forráð í þessum efnum og áttum okkur ekki á því hvílíkur fengur það er að hafa fengið til varðveislu þær orkuauðlindir sem eru til staðar í landinu. Nei, við höfum sóað þeim á altari stóriðjustefnunnar, til erlendra stóriðjufyrirtækja sem hafa örugglega grætt tugi milljarða, leyfi ég mér að segja. Alcan hefur örugglega grætt hér tugi milljarða á ódýrum orkusölusamningum og ívilnandi skattasamningum við íslensku ríkisstjórnina þann tíma sem það fyrirtæki hefur verið starfandi í Straumsvík. Í sjálfu sér erum við enn að láta þessi erlendu stóriðjufyrirtæki taka til sín rentu og arð af þeirri auðlind sem eðlilegt væri að við, íslenska þjóðin, fengjum notið.

Indriði H. Þorláksson segir í grein sinni í Morgunblaðinu 23. apríl að rétt sé að hafa í huga að Ísland sé ekki hagkvæmur framleiðslustaður fyrir ál, t.d. með tilliti til flutnings á hráefni og framleiðsluvöru og þeirrar staðreyndar að laun séu hér há, og hann segir að þetta óhagræði verði að jafna út með orkuverðinu. Hverjir eru það sem gjalda fyrir? Það erum við, íslenska þjóðin.

Mig langar til að fá að vitna beint í grein Indriða vegna þess að ég tel að það sem hann segir eigi fullt erindi til okkar í þeirri stóriðjuumræðu sem hefur tekið sig upp á sumarþinginu, fyrstu dögum nýrrar ríkisstjórnar. Þar segir hann að það bendi allt sterklega til þess að verð á orku til álframleiðslu hér á landi sé nú orðið lægra en heimsmarkaðsverð og sé svo sé það vísbending um að orkukaupandinn, þ.e. álverið í þessu tilfelli, sé að fá í sinn hlut nokkuð af þeirri rentu sem auðlindin sjálf gefur af sér. Svo segir hann, með leyfi forseta:

„Sú spurning vaknar hins vegar hvort nýting náttúruauðlinda með þeim hætti að arður af þeim renni að verulegu leyti til erlendra aðila samrýmist hugmyndum manna um þjóðareign á náttúruauðlindunum og nýtingarrétt á þeim. Fyrir Ísland hefur auðlindin þá misst fjárhagslegt gildi sitt, öðrum nýtingarmöguleikum hefur verið fórnað og umhverfisspjöll hugsanlega unnin. Auðlindin er þá ekki lengur auðlind en er orðin byrði.“

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að Indriði H. Þorláksson, sem er afar fróður maður um fjármál og skattamál eins og við vitum, hefur að mínu mati lög að mæla í þessum greinum og það er ástæða til að þær nefndir sem starfa á þessu sviði líti á þessi ummæli hans í Morgunblaðsgreinunum í tengslum við þau mál sem nú eru að fara til þeirra.

Hæstv. iðnaðarráðherra stendur hér í pontu og reigir sig mjög að mínu mati þar sem hann nýr okkur Vinstri grænum því um nasir að við séum ótrúverðug í stóriðjumálum. Í því sambandi, sagði hann áðan, yrðu menn bara að hafa eina stefnu og það hefði núverandi ríkisstjórn.

Nú langar mig til að benda þingheimi og þjóð á að þar talar hæstv. ráðherra, þar talar maður sem fyrir ekki svo löngu síðan, þ.e. hinn 15. mars 2003, greiddi atkvæði með Norðlingaölduveitu og var því fylgjandi að Norðlingaölduveita yrði reist í Þjórsárverum. Þessi hæstv. ráðherra hefur nú skipt um skoðun í orði kveðnu, hann segir að vernda eigi votlendið í Þjórsárverum. Hann segir að þessi ríkisstjórn hafi eina skoðun. Það kom mjög glögglega í ljós á fyrsta degi ríkisstjórnarinnar að svo er ekki. Hæstv. ráðherra fer með bull og fleipur úr ræðustólnum, því að hæstv. forsætisráðherra sagði í fjölmiðlum 24. maí sl., daginn sem ríkisstjórnin hóf störf sín, að það stæði ekki nokkur skapaður hlutur um það í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að horfið yrði frá Norðlingaölduveitu. Ef það væri ætlunin stæði það í stefnuyfirlýsingunni. En það stendur þar ekki. Og hv. þm. Pétur H. Blöndal kinkar hér kolli til samþykkis um að hann sé þar með sammála túlkun hæstv. forsætisráðherra. Sama dag sagði hæstv. utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að samkvæmt sínum skilningi á stefnuyfirlýsingunni væri ekki pláss fyrir Norðlingaölduveitu og hún yrði ekki reist á þessu kjörtímabili. Hvað er þessi hæstv. iðnaðarráðherra svo að pípa um ríkisstjórn með eina skoðun?

Í tilefni orða hans áðan þar sem hann sagði að hann mundi ekki afturkalla einhver rannsóknarleyfi sem hefðu verið gefin út með tilstyrk eða tilstuðlan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, eins og hann orðaði það í ræðum sínum áðan, vil ég fá að spyrja þennan hæstv. iðnaðarráðherra hreint út varðandi síðasta embættisverk forvera hans sem var þann 10. maí og fólst í því að gefa út rannsóknarleyfi á óraskað svæði norður í landi. Það heitir Gjástykki. Mun þessi hæstv. iðnaðarráðherra þá ekki beita sér fyrir því meðan þær framkvæmdir eru ekki hafnar að afturkalla það leyfi? Ef hæstv. ráðherra er tilbúinn til að afturkalla það leyfi sem gefið hefur verið út til að raska þeim náttúruminjum sem við eigum í Gjástykki, fer kannski að kveða við annan tón frá mér í hans garð.

Ég vil fá að heyra það hér frá hæstv. ráðherra áður en við förum úr þingsalnum í dag og yfirgefum þessa umræðu hvort hann hyggist beita sér fyrir því að rannsóknarleyfið í Gjástykki verði afturkallað.