134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík.

13. mál
[16:47]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er út af fyrir sig ágætt að hv. þingmaður sé skíthrædd um það. Hún mun þá standa í lappirnar eins og ég veit að hún hefur eðli og krafta til til þess að veita þessum iðnaðarráðherra aðhald í því efni og hjálpa honum eftir atvikum.

Hins vegar fer henni eins og Tómasi forðum. Hún verður þá bara að leggja höndina í sárið og trúa því. Hún verður bara að minnast þessara orða sinna þegar kjörtímabilið er úti og meta stöðuna þá, hvað hefur gerst og hvað hefur ekki gerst.

Það er a.m.k. alveg ljóst að sú stefna sem ég mun fylgja sem iðnaðarráðherra er algjörlega kristaltær. Hún speglast í fullkomlega ærlegum svörum mínum til hv. þingmanns. Hún spyr mig um Gjástykki þar sem búið var að veita rannsóknarleyfi og ég ætla ekki að afturkalla það. Hv. þingmaður gæti svo spurt mig með hvaða hætti ætti að afturkalla það. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því. Í öllu falli ætla ég ekki að gera það. En ég ætla ekki að veita rannsóknarleyfi, hvað þá nýtingarleyfi, á önnur svæði sem óröskuð eru nema Alþingi taki fram fyrir hendurnar á mér. Hv. þingmaður gæti þá spurt mig, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, eðlilega: Hvað með þennan rosalega meiri hluta sem er á þessu þingi? Verður stjórnarandstaðan bara ekki lamin niður í því efni? Ekki með atkvæði iðnaðarráðherra. Það er algjörlega klárt. Þetta liggur bara kristaltært fyrir.

Náttúruverndin og átökin um hana hafa snúist um hin óröskuðu svæði, þau sem ekki er búið að skemma. Þetta gengur út á að vernda þau og viðkvæm búsvæði. Það er viðfangsefni hins praktíska stjórnmálamanns. Við breytum ekki þeim svæðum sem búið er að raska, því miður. Því miður. Það er bara þannig. (KolH: Það er ekki búið að raska Gjástykki.) Enginn snýr klukku tímans aftur, ekki einu sinni hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir. Ég virði afstöðu hennar. Hún er eldhugi í þessari baráttu. Ég vona að ég sé það á minn hátt líka. Ég hef dregið línurnar. Ég ætla að halda mig innan þeirra.