134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[18:26]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ef marka má umræður hér fyrr í dag virðist mér sem gangverk stóriðjunnar eigi að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist, hér eftir sem hingað til. Orkufyrirtækin gera samninga sín á milli eins og ekkert sé, taka tilboðum, innsigla samninga og gera beinlínis ráð fyrir því að stjórnvöld muni á engan hátt koma í veg fyrir áætlanir þeirra. Það virðist sem þau hafi rétt fyrir sér. Ætlar ný ríkisstjórn virkilega engu að breyta þrátt fyrir kosningaloforð?

Hvers vegna er það svo, herra forseti, að Landsvirkjun fær á endanum alltaf allt sem hún biður um, hvað sem hver segir, á meðan fólkið í landinu er ekki spurt? Á orkufyrirtækjum að leyfast að bíða bara af sér hlutina, fresta áformum um sinn en halda í raun sínu striki? Hversu lengi á þetta að ganga þannig fyrir sig?

Náttúrufarsrannsóknir og náttúruvernd eiga að koma á undan orkurannsóknum og leyfum. Þær eiga að koma á undan samningum og kröfum orkufyrirtækja. Er ekki kominn tími til að snúa við blaðinu af alvöru og byrja á réttum enda? Mér er ekki rótt, herra forseti, þrátt fyrir að sá ágæti þingmaður Illugi Gunnarsson hvetji okkur til þess. Sagan sýnir okkur, hin áratugalanga barátta um Þjórsárver, að það er engin ástæða til að mönnum sé rótt. Okkur er ekki rótt og okkur á ekki að vera rótt. Enda tekur ný ríkisstjórn ekki af skarið í þessum efnum.

Það er með ólíkindum að á árinu 2007 skulum við Íslendingar enn, eftir öll þessi ár, þessa áratugi, vera að ræða um hvort Þjórsárver séu óhult. Mér er það satt best að segja óskiljanlegt. Hvers vegna í ósköpunum kostar það áratugabaráttu, erfiða og linnulausa, að bjarga jafnvel því sem hver einasti Íslendingur á að vera stoltur af að vernda og flagga? Það er dapurleg staðreynd að við Íslendingar séum ekki komin lengra en þetta í verðmætamati okkar og sýn á náttúruvernd. Ég leyfi mér að fullyrða að í þessum efnum erum við langt á eftir framsæknum þjóðum, sem þó geta engan veginn stært sig af þeirri stórfenglegu náttúru sem við Íslendingar höfum fengið í arf.

Eins og allur þingheimur ætti að vita, en veit kannski ekki, eru Þjórsárver undur á heimsmælikvarða. Lýsingar af því stórveldi sem Þjórsárver eru í vistfræðilegum skilningi gætu fyllt marga doðranta, með sínu einstæða landslagi, gróður- og lífríki og öllu sem því tilheyrir. Þetta er svæði sem á hvergi annars staðar heima en á heimsminjaskrá UNESCO. Ætlar ný ríkisstjórn að leyfa því að eiga þar heima og þá hvenær? Eftir hverju er verið að bíða?

Hvernig dettur okkur annað í hug en að slíkan dýrgrip sem Þjórsárver eigi að vernda um aldur og ævi? Hvernig dettur okkur annað í hug en að leyfa aldrei Norðlingaölduveitu eða nokkra þá aðra röskun sem gróðaöflin hafa um áraraðir leynt og ljóst stefnt að, gegn vilja hugrakkra heimamanna — já gegn vilja heimamanna. Við Íslendingar stöndum öll í þakkarskuld við heimamenn við Þjórsá fyrir þá hetjulegu baráttu sem þeir hafa háð til varnar Þjórsárverum. Það hefur sannarlega ekki verið átakalaust og kostað blóð, svita og tár, að ekki sé talað um blekkingar og svik. En þau hafa staðið í lappirnar og nú fáum við einstakt tækifæri til að sýna þeim að baráttan hafi verið þess virði, að Þjórsárver séu óhult um alla ævi.

Það er okkur Íslendingum til skammar að þetta mál sé ekki fyrir löngu afgreitt með skýrum og afgerandi hætti. Nú fær Alþingi Íslendinga og ný ríkisstjórn enn og aftur tækifæri til að sameinast um þetta þjóðþrifamál enda ekki seinna vænna. Það þarf engar frekari nefndir til að fjalla um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Það er ekkert pláss fyrir málamiðlanir og er ekki eftir neinu að bíða. Það eina sem þarf er að við höfum manndóm í okkur til að segja í eitt skipti fyrir öll: Við náttúrulegum mörkum Þjórsárvera í heild sinni og nærliggjandi svæðum að Sultartangalóni verður aldrei snert, við Þjórsá verður ekki hreyft. Punktur. Þá mundu verkin tala og þá væri staðið við gefin loforð.

Hvað þá með Þjórsá? Skilaboðin sem við höfum fengið um virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár eru ekki skýrari en svo að Landsvirkjun hefur þegar tekið tilboði um hönnun virkjananna og fleira sem að þeim snýr. Hvar eru loforð Samfylkingarinnar í þessum efnum, loforð fyrir kosningar, um að af þessum virkjunum yrði ekki? Ef svo fer fram sem horfir sannast enn á ný að gróðaöflin og orkufyrirtækin eru ríki í ríkinu og ætla sér að fara sínu fram hvað sem það kostar og hvað sem hver segir og öllum loforðum er gleymt.

Með virkjunum í neðri hluta Þjórsár á að fórna anddyri Þjórsárdals og Urriðafossi ásamt öðrum stórbrotnum fossum. Þar á að fórna lífríki og gróðri, bújörðum, landbúnaði, veiði og ferðaþjónustu svo fátt sé nefnt. Margrómuð náttúrufegurð við dyr hálendisins, flúðir, sker og eyjar og undurfagrir bakkar Þjórsár eiga að sökkva. Einungis málverk okkar gömlu snillinga sem hrifust af landslaginu og kunnu að meta það eiga að verða eftir til vitnis.

Ég spyr: Ætlar ný ríkisstjórn virkilega að standa fyrir því að Búðarfoss í Þjórsá hverfi, Urriðafoss, Dynkur? Ætlar ný ríkisstjórn að standa fyrir því að Hagaey og hólmar og flúðir Þjórsár hverfi og árfarvegur skerðist? Ætlar hún að sökkva jörðum meðfram Þjórsá og bújörðum bænda? Ætlar hún að hunsa beiðni sambýlisins Skaftholts? Ætlar ný ríkisstjórn að skerða fuglalíf í Þjórsá og gengd laxa upp ána? Ætlar hún að setja hrygningarstöðvar þorsks undan ósum Þjórsár í hættu? Ætlar ný ríkisstjórn að stórskaða lífríki Þjórsár og gróður, útsýni, landslag, fegurð og fornminjar frá landnámi?

Eða ætlar þingheimur allur og ný stjórn að standa vörð, ekki bara um Þjórsárver heldur um Þjórsá og hennar stórbrotnu heima? Það er val í þessum efnum, herra forseti, og það er og verður afdrifaríkt. Það verður afdrifaríkt um ókomna tíð.

Ég skora á hið háa Alþingi og nýja ríkisstjórn að sýna röggsemi í þessu máli. Það er ekkert erfitt við það. Það er einfalt mál. Við eigum ekki að þurfa að bíða eftir svörum, svo skýr voru loforðin í kosningabaráttunni. Fólk við Þjórsá og aðrir Íslendingar eiga ekki að þurfa að berjast í 40 ár í viðbót, ekki í 40 mánuði, vikur eða daga. Menn eiga ekki að þurfa að lifa milli vonar og ótta um hvað verður. Baráttan á að hafa skilað árangri nú þegar.

Herra forseti. (Forseti hringir.) Framgangur þessarar þingsályktunartillögu og þverpólitísk samstaða um hana ætti að vera borðleggjandi mál.