134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[18:41]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vona svo sannarlega að málflutningur hv. þm. Helga Hjörvars um að hér muni ný ríkisstjórn í raun standa fyrir stórfelldum breytingum á þessu sviði sé réttur. En það stendur ekki í stjórnarsáttmálanum sem er einstaklega fátæklegur hvað varðar umhverfismál þar sem ný stjórn stærir sig af því að ætla að þyrma, a.m.k. um stundarsakir, stöðum sem fyrir löngu eru friðlýstir.

Það er með hreinum ólíkindum hvernig fólk getur slegið sér á brjóst yfir því sem ekkert er en ég vona svo sannarlega það besta. Ég vona að nýr umhverfisráðherra, sem ég hef trú á, muni taka til hendinni. Ef hið raunverulega á bak við allt saman er óbreytt ástand, sem ég virkilega óttast miðað við allt og allt, þennan fátæklega stjórnarsáttmála í umhverfismálum, er lítil ástæða til bjartsýni. Það sem hér hefur komið fram í dag og á þeim fáu dögum sem ný ríkisstjórn hefur starfað gefur því miður ekkert tilefni til bjartsýni.

Ef hv. þingmaður hefur á réttu að standa, hvers vegna segir þessi ríkisstjórn þá ekki skýrum orðum: Norðlingaölduveita er slegin af fyrir fullt og allt? Og hvar, enn og aftur, eru yfirlýsingar Samfylkingarinnar um neðri hluta Þjórsár? (Forseti hringir.) Ég sætti mig ekki við að það eigi bara að stefna að því að virkja þar og að Landsvirkjun eigi þar að fá að komast upp (Forseti hringir.) með að halda uppteknum hætti.