134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[19:00]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem hefur farið fram um þingsályktunartillögu okkar. Ég tel hana hafa verið málefnalega og fjöruga. Mér finnst nokkuð margt hafa komið fram í ræðum hv. þingmanna sem er þess virði að á því sé stiklað í lokaræðu.

Fyrst langar mig til að segja um ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar að það eru mér tíðindi ef það er rétt sem hann segir — sem stjórnarmaður Landsvirkjunar ætti hann að vita um hvað hann er að tala — að stjórn Landsvirkjunar hafi fallið formlega frá Norðlingaölduveitu. Mér er ekki kunnugt um það. (IllG: Það sagði ég ekki.) Ég skildi ræðu hv. þingmanns þannig.

Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur hvað eftir annað lagt fram í stjórn Landsvirkjunar formlegar tillögur um að Landsvirkjun falli frá Norðlingaölduveitu. Því hefur aldrei verið sinnt. Það hefur aldrei verið uppi hjá Landsvirkjun neinn vilji til þess. Síðast í fjölmiðlum rétt um það bil sem ný ríkisstjórn var að myndast lét Friðrik Sophusson hafa eftir sér, eða svo mátti á honum skilja, að Landsvirkjun væri mikið í mun að fá að halda áfram þeim áformum. Ég lít því ekki svo á að horfið hafi verið frá Norðlingaölduveitu.

Orðanna hljóðan í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er alveg klár. Ég verð að segja, þótt að ég hafi miklar mætur á hv. þm. Illuga Gunnarssyni að ég geri ekki eins og hv. þm. Bjarni Harðarson, að taka mark á orðum hans fram yfir orð hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra. (BjH: Þau voru miklu skýrari.) Það er rétt, þau voru skýrari, en satt að segja sagði hæstv. forsætisráðherra skýrt í fjölmiðlum:

„Ef það væri ætlan okkar að falla frá Norðlingaölduveitu þá stæði það hér.“

Það stendur ekki. Það er því alveg ljóst að það er ágreiningur í stjórnarflokkunum um málið. Það staðfesti hæstv. forsætisráðherra og hann sagði að textinn væri málamiðlun þannig að það liggur alveg ljóst fyrir. Það er þá alveg á hreinu. Það er ágreiningur um það milli stjórnarflokkanna hvort slá eigi Norðlingaölduveitu út af borðinu eða ekki. Við skulum bara hafa þann ágreining á hreinu. Svo verður á endanum framtíðin að leiða í ljós hvor af stjórnarflokkunum hefur betur. Við segjum það, sem leggjum fram þessa tillögu hér. Það er hægt að koma í veg fyrir þann ótta og óróa sem ósætti stjórnarflokkanna skapar með því að samþykkja þá tillögu sem hér liggur fyrir. Þá eru tekin af öll tvímæli.

Virkjanakostirnir í neðri hluta Þjórsár eru hagkvæmustu virkjanakostir sem um getur, sagði hv. þm Illugi Gunnarsson. Þessi umræða um hagkvæmnina verður að fara að breytast. Við megum ekki mæla þetta ævinlega á þennan eina mælikvarða hagkvæmni. Við verðum að átta okkur á því að það eru aðrir mælikvarðar sem mæla má hlutina á, t.d. mælikvarði sjálfbærrar þróunar. Það skiptir því máli að athuga að það þarf að tala á mun breiðari grunni um þessa hluti og þessar virkjanir en þeim að mæla verkefnin ævinlega á mælikvarða hagkvæmninnar.

Varðandi það sem hv. þm. Bjarni Harðarson nefndi, hvers vegna ekki hefðu komið umsagnir eða athugasemdir við þessar virkjanir í neðri hluta Þjórsár þegar þær fóru í gegn og ekki frá okkur vinstri grænum sem börðumst mjög í umhverfismatinu þegar Norðlingaölduveita var í umhverfismatsferli þá held ég satt að segja að því sé til að svara að umhverfisverndarbaráttan og fólkið sem í henni hafði staðið var orðið svo lemstrað eftir átökin um Þjórsárver og átökin um Kárahnjúka að á sama tíma og Landsvirkjun setti fram þessar virkjanahugmyndir í neðri hluta Þjórsár, það var þó í byggð og á ræktuðu landi en ekki á ósnortnu landi, að fólk óttaðist hreinlega að gera athugasemdir við þetta. (BjH: Þið lofuðuð þær í hástert.) Þið lofuðu þær í hástert, kallar hv. þingmaður fram í. Það verður aldrei um mig sagt að ég hafi lofað virkjanir í neðri hluta Þjórsár í hástert, það verður aldrei um okkur sagt. Aldrei.

Sannleikurinn er auðvitað sá að meira að segja eigendur þess lands sem á að fara undir vatn hafa sagt nei. Þá spyr ég hv. þm. Illuga Gunnarsson: Ef það er vilji hv. þingmanns að landið verði ekki tekið eignarnámi vegna þess að það séu ekki ríkir almannahagsmunir fyrir því að taka þetta land, af hverju eru þá ekki orð eigendanna tekin gild? Eigendurnir eru búnir að segja nei. Er þá ekki sjálfgert fyrir Landsvirkjun að draga sig út? Þeir sem eiga landið segjast ekki ætla að fórna því undir þessar virkjanir. Við skulum heldur ekki gleyma aðalatriðinu í þessu máli: Til hvers er verið að sækjast í þetta land? Til hvers á að virkja í neðri hluta Þjórsár? Til þess að fæða enn eitt álverið, enn eina mengandi stóriðjuna, enn eina gróðurhúsalofttegundalosandi stóriðju, sem við höfum ekki pláss fyrir hvorki í kvótanum frá Kyoto né í nokkru öðru tilliti.

Sannleikurinn er sá að það er engin þörf fyrir virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár. Hv. þm. Bjarni Harðarson, stattu bara með okkur gegn þeim. Vertu ekki að búa til að það sé óhjákvæmilegt að í þær verði farið. Það er ekki óhjákvæmilegt, okkur er hægur vandinn að koma í veg fyrir þær. Það þarf bara vilja til þess að hverfa af stóriðjustefnunni, en sá vilji er auðvitað ekki til staðar hjá þessari ríkisstjórn sem er því miður, í þessu tiltekna máli varðandi Þjórsárverin og Þjórsána, með tvær skoðanir — ekki eina, eins og hæstv. iðnaðarráðherra sagði áðan að ríkisstjórnin hefði. Ríkisstjórnin hefur tvær skoðanir, bæði varðandi neðri hluta Þjórsár og Þjórsárverin.

Varðandi það sem hv. þm. Bjarni Harðarson sagði um hrossakaupin, neðri hluta Þjórsár og varðandi umhverfismatsmál langar mig til að nefna að tveir þættir gera það að verkum að það er mjög misráðið að fara í þær út frá náttúruverndarsjónarmiðum, t.d. laxastofninn í Þjórsá. Þjórsá er stærsta laxveiðiá Íslendinga. Það er vitað, við þekkjum það úr umhverfismatinu, að laxastofninn bíður skaða af því að fara í þær framkvæmdir sem áætlaðar eru í Urriðafossi og virkjun í neðri hluta Þjórsár. Þar erum við að fórna gríðarlegum hagsmunum. Getum við þá ekki sammælst um að gera það ekki, varðveita laxastofninn og tryggja að hann fái áfram blómstrað og gengið upp ána?

Sömuleiðis má nefna sprungusveiminn á svæðinu. Það er ekki vitað hvaða áhrif þau lón sem þarna þarf að gera koma til með að hafa á sprungurnar. Sannleikurinn er auðvitað sá, eins og jarðeðlisfræðingar hafa látið hafa eftir sér upp á síðkastið, að það er veruleg áhætta af þeirri þyngd, sérstaklega af efsta lóninu, með tilliti til sprungnanna. Séu sprungur á þessu svæði sem eru þess eðlis að þær geti í sjálfu sér gliðnað þegar þunginn kemur á þær erum við að tala um eilífðarvandamál. Eigum við ekki bara að setja þetta til hliðar allt saman og segja: Þjórsá verður látin í friði það sem eftir er af henni óhreyfðri. Ég veit auðvitað að miklu af henni er raskað nú þegar. Við gerum ekkert í því. Þar eru virkjanir sem hafa borgað sig og við erum ekki að tala um að rífa þær niður en það sem eftir er skulum við setja á ís og hverfa frá virkjanaáformum. Það verður okkur fyrir bestu.

Varðandi landamerkin sem hv. þm. Bjarni Harðarson nefndi, að hann skilji ekki hvers vegna stækka ætti friðlandið alla leið suður í Sultartangalón — hann hafi verið að þvælast þarna svo mikið, hann þekki þetta svo vel. Sannleikurinn er sá að Umhverfisstofnun og áhugahópur um verndun Þjórsárvera setti fram þessa tillögu. Það hefur verið talið að heimamenn, sem settu þá tillögu fram í nafni áhugahóps um verndun Þjórsárveranna og sérfræðingar hjá Umhverfisstofnun, viti nokkuð um hvað þeir eru að tala. Fyrirmyndin að landamerkjunum, þ.e. þessum friðlandslínum í tillögunni er fengin hjá þessum aðilum. Ég tel okkur því hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að það sé þess virði að draga þau mörk þar sem við gerum í tillögunni.

Samfylkingin sagði í kosningaáherslum sínum, sem hún kynnti og samþykkti á landsfundi undir yfirskriftinni Fagra Ísland, náttúruvernd og auðlindir í 4. tölulið að stækka friðlandið í Þjórsárverum í samræmi við tillögu Umhverfisstofnunar og í samráði við heimamenn, sem þá höfðu talað um að það ætti að fara þessa leið. Núna lætur Samfylkingin sér nægja að kvitta undir orðalagið að stækkun friðlandsins verði tryggð þannig að það nái yfir hið sérstaka votlendi veranna. Það er því ljóst sem ég sagði fyrr í ræðu minni, að það hefur orðið málamiðlun á milli ríkisstjórnarflokkanna í þessu efni. Ég tel það miður og tel fulla ástæðu til að Alþingi Íslendinga samþykki þá tillögu sem hér liggur fyrir. Ég treysti því að hún fái þannig umfjöllun í umhverfisnefnd og þakka hv. formanni hennar fyrir góð orð um að umfjöllunin verði þannig að a.m.k. næsta haust eigum við tækifæri til að fá hana á borð þingsins aftur og greiða um hana atkvæði.