134. löggjafarþing — 6. fundur,  7. júní 2007.

friðlandið í Þjórsárverum og verndun Þjórsár.

6. mál
[19:12]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. Illuga Gunnarssyni um að það þurfi að ná niðurstöðu í þessi mál á þann hátt að ákveðnir hlutar landsins verði nýttir og heimilt verði að nýta fallvötnin til raforkuframleiðslu og einhver háhitasvæði og svo verði aðrir hlutar verndaðir. Um þetta erum við sammála. Til þess höfum við í gangi vinnu, rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Hún fór í gang fyrir einum tíu árum, ef ég man rétt.

Í haust sem leið þegar auðlindanefndin síðari, svokallaða, fjallaði um verndun og nýtingu náttúruauðlinda þá lá fyrir að rammaáætlunin, annar áfangi yrði kláraður fyrir árslok 2009. Ríkisstjórnin er því ekki að gera neitt nýtt í stefnuyfirlýsingu sinni í þeim efnum.

Hins vegar var það líka ljóst, þegar auðlindanefndin síðari lauk störfum sínum, að ákveðnir aðilar, m.a. fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ínefndinni, voru þess fýsandi að engu að síður yrði talsvert svigrúm til nýtingar, jafnvel á því tímabili sem rammaáætlunin væri ekki tilbúin. Á því tímabili var heldur enginn vilji hjá sjálfstæðismönnum fyrir því að rammaáætlunin hlyti eitthvert lögformlegt gildi. Það hefur aldrei verið vilji hjá sjálfstæðismönnum til að hún fengi lögformlegt gildi.

Það má þó þakka Samfylkingunni að hún fær lögformlegt gildi í þessari stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna. Það sem Samfylkingin vildi fyrir kosningar var að gert yrði hlé á framkvæmdum fyrir stóriðju þangað til rammaáætlunin liti dagsins ljós. Það er miður að Samfylkingin skuli ekki enn vera sama sinnis.