134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

stuðningur við innrásina í Írak og stjórn Palestínu.

[10:36]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft tveimur stórum utanríkismálum sem erfitt er að fjalla um í örstuttu máli.

Varðandi Íraksmálið er það náttúrlega þannig að við hv. málshefjandi sátum saman í þeirri ríkisstjórn þar sem ákveðið var að styðja innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra inn í Írak. Það er söguleg staðreynd og henni verður ekki breytt.

Hins vegar er það líka þannig að margt hefur farið á annan veg í Írak en menn höfðu vænst. Ástandið þar er vægast sagt hörmulegt og nýja ríkisstjórnin á Íslandi harmar það ástand sem þar er og þau átök sem þar eru núna. Hins vegar er varla hægt að tala um þetta sem stríð í hefðbundnum skilningi þar sem herir tveggja landa takast á. Þetta er annars eðlis en hefðbundin stríðsátök, því miður. Írakar fengu gott tækifæri eftir að búið var að steypa ríkisstjórn Saddams frá völdum til að ganga í gegnum lýðræðislegt ferli kosninga og búið er að koma þar á nýrri ríkisstjórn en því miður hefur þróunin ekki orðið á þann veg sem flestar vestrænar þjóðir höfðu vænst. Um þetta er rætt í öllum löndum og þær þjóðir sem þarna hafa enn þá herafla, svo sem Bretar og Danir, velta nú mjög fyrir sér með hvaða hætti þær eigi að bregðast við núverandi ástandi. Ríkisstjórnin íslenska harmar það ástand sem þarna er núna.

Varðandi Palestínu hafa Íslendingar áratugum saman átt mjög gott samstarf við Ísraelsríki. Þeir hafa í seinni tíð einnig haft ágæt friðsamleg samskipti við Palestínu. Þarna er í gangi ákveðið friðarferli sem því miður er komin töf á. Friðarferlinu hefur stýrt svokallað fjóreyki, kvartettinn Bandaríkin, Rússland, Evrópusambandið og Sameinuðu þjóðirnar, og það væri ekki skynsamlegt fyrir okkur að skerast úr leik í þeim hópi (Forseti hringir.) enda höfum við ekki þá sérstöðu á þessu svæði sem t.d. Norðmenn hafa sem gegnt hafa sáttasemjarahlutverki á svæðinu.