134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

stuðningur við innrásina í Írak og stjórn Palestínu.

[10:41]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Það er rétt sem hæstv. forsætisráðherra sagði áðan, þetta mál er miklu stærra en svo að hægt sé að afgreiða það í stuttri umræðu. Mig langar til að mótmæla þeim orðum hæstv. forsætisráðherra að Íslendingar hafi ekki erindi inn í Palestínudeiluna. Tilfellið er að við Íslendingar höfum haft frumkvæði í Palestínumálum allt frá upphafi þeirrar sögu þegar Thor R. Thors var sá maður sem lagði til á þingi Sameinuðu þjóðanna skiptingu Palestínu í tvö ríki sem miðaði við að ekki væri einungis Ísraelsríki á þessum stað, heldur líka ríki Palestínumanna. Síðan vorum við líka langfyrst vestrænna þjóða til að viðurkenna með heimsókn þáverandi forsætisráðherra Steingríms Hermannssonar til forustumanns Palestínumanna, Yassers heitins Arafats, meðan hann sat í Túnis þannig að skyldur okkar í málefnum Palestínumanna eru mjög ríkar. Skyldur okkar eru líka ríkar vegna þess að við höfum stutt Ísraelsmenn. Sá stuðningur hefur oft gengið allt of langt og hefur kallað á það að staða þeirra gagnvart þessari fátæku vopnlausu þjóð á Vesturbakkanum hefur verið langtum of sterk og í rauninni ólíðandi.

Ég kalla eftir skýrari svörum. Telur hæstv. forsætisráðherra þar með að yfirlýsingar hv. alþingismanns Árna Johnsens í umræðu um Palestínumálin um daginn hafi verið marklausar? Hann lýsti sig þar fylgjandi þeirri tillögu sem lá frammi um það að Íslendingar tækju upp eðlileg samskipti við stjórnvöld í Palestínu, og ég og aðrir sem það heyrðum fögnuðum auðvitað þeirri yfirlýsingu. Nú kalla ég eftir því að þingið standi (Forseti hringir.) saman um þessi mál.