134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

stuðningur við innrásina í Írak og stjórn Palestínu.

[10:45]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er einkennilegt ef helsta umkvörtunarefni stjórnarandstöðunnar á þessu sumarþingi og þessum fallega degi er stefnubreyting sú sem klárlega er staðfest gagnvart stríðinu í Írak í stjórnarsáttmála núverandi stjórnarflokka (GÁ: Hvað með Íslendinga …?) og hefði ég haldið að Framsóknarflokknum, hv. þm. Guðni Ágústsson, væri sæmra að þegja um málefni Íraks eins og ferill þess flokks er í því máli. Hins hefði ég vænst að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gengi hér upp og fagnaði þeirri breytingu sem orðin er sem sá friðarsinni sem hann er í stað þess að ganga hér til þings dag eftir dag við tvo stafi, grátstaf og kveinstaf.

Hinar áhyggjurnar vil ég taka undir sem fram komu hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni er varða launahækkanir í Seðlabankanum sem hljóta að vekja efasemdir um bankastjórnun. Helsta verkefni Seðlabankans er að halda aftur af þenslu. Það hefur ekki tekist árum saman og einmitt nú þegar á ríður að við náum mjúkri lendingu og þegar óstöðugleiki á vinnumarkaði er mikill sendir bankastjórnin þessi skilaboð út á vinnumarkaðinn sem eru því miður olía á eld en ekki sá kaldi bakstur sem Seðlabankinn á að vera við þessar kringumstæður í efnahagsmálum. Ég fagna því að fulltrúar Samfylkingarinnar í bankaráði fengu þessa hækkun lækkaða og fengu henni áfangaskipt en tel að hún sé óhófleg enda nemur hækkunin ein hærri fjárhæð en margir þeir sem sinna umönnunarstörfum í þessu samfélagi hafa í mánaðarlaun. Ábendingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hljóta að gefa nýju bankaráði efni til umhugsunar (Forseti hringir.) þegar það undirstrikar það erfiða verkefni okkar að halda aftur af launahækkunum í (Forseti hringir.) opinberum störfum hér á næstu árum með þessi skilaboð í farteskinu.

(Forseti (StB): Forseti minnir hv. þingmenn á að tala ekki til eða ávarpa einstaka þingmenn í sal heldur minnast þeirrar ágætu reglu að tala til forsetans.)