134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

stuðningur við innrásina í Írak og stjórn Palestínu.

[10:52]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég tek þetta mál upp á hv. Alþingi vegna þess að mér finnst algjörlega nauðsynlegt að þingheimur og þjóðin viti hvernig þetta mál stendur þegar hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra tala út og suður, austur og vestur.

Ég skil svar hæstv. forsætisráðherra þannig, þó að hann svari spurningu minni ekki beint — hann segir þegar hann talar um innrásina og stuðninginn: „Þeirri ákvörðun verður ekki breytt“ — þannig að ákvörðunin standi óbreytt.

Það sem hæstv. utanríkisráðherra sagði í þinginu fyrir nokkrum dögum er þá rangt, ekkert hefur verið afturkallað. Þetta finnst mér mjög mikilvægt að komi fram og það er alvarlegt í rauninni. Hver harmar ekki stríðsreksturinn í Írak? Það er meiri stefnubreytingin sem kemur fram hjá nýju ríkisstjórninni, að harma þann stríðsrekstur. Þetta er yfirklór eins og stundum hefur verið talað um á hv. Alþingi en þá kannski af öðrum en mér.

Hvað varðar Palestínu er engin breyting þar á stefnu ríkisstjórnarinnar miðað við orð hæstv. forsætisráðherra. Ég er þá forvitin að heyra hvaða veganesti hæstv. utanríkisráðherra hefur þegar hún fer að hitta utanríkisráðherra Noregs fljótlega, Jonas Gahr Støre, og ætlar að taka þetta mál upp við hann. Hvaða erindi hefur hún við hæstv. utanríkisráðherra Noregs þegar hún hefur ekkert að segja? Þetta finnst mér mjög fróðlegt að fræðast um.

Svo vil ég leiðrétta það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni um skipun bankastjóra Seðlabankans, að þeir séu ávallt skipaðir pólitískt. Þegar síðast var skipað í stól seðlabankastjóra, þegar Ingimundur Friðriksson var skipaður, var það ekki gert pólitískt. Það var framsóknarmaður sem fór út en það var embættismaður sem fór inn. Við framsóknarmenn höfum aflagt þessa reglu hvað sem aðrir gera í þeim efnum.