134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:00]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra frá meiri hluta hv. heilbrigðisnefndar, sem er að finna á þskj. 22. Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund nokkra gesti sem eru taldir upp í þingskjalinu.

Þá er einnig í þingskjalinu lýsing á því frumvarpi sem um er að ræða en það er flutt í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 og hefur það að markmiði að stuðla að bættum hag aldraðra.

Meiri hluti nefndarinnar vekur athygli á því að atvinnutekjur 70 ára og eldri hafa ekki heldur áhrif á fjárhæð heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, samanber 13. gr. sömu laga. Í þeirri grein kemur fram að ef greiðsla samkvæmt lögunum er grundvölluð á tekjum umsækjanda eða bótaþega skuli þær ákveðnar samkvæmt 16. gr. laga um almannatryggingar. Það sem við erum að gera hér gildir því líka um heimilisuppbótina.

Meiri hlutinn áréttar að með þessum breytingum hafa atvinnutekjur 70 ára og eldri hvorki áhrif á fjárhæð lífeyris þeirra sjálfra né lífeyris maka þeirra frá Tryggingastofnun ríkisins. Meiri hlutinn leggur því til að c-lið 1. gr. frumvarpsins og 2. gr. þess verði breytt þannig að þessi skilningur komi skýrt fram.

Samkvæmt 5. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga og laga um málefni aldraðra eru bætur reiknaðar út frá tekjum lífeyrisþega og vistmanna á almanaksári. Í þessum ákvæðum kemur fram að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Þá segir að bótagreiðsluár sé almanaksár. Í ljósi þess að miðað er við að frumvarp þetta verði að lögum á miðju ári, þ.e. 1. júlí 2007, þarf að leysa úr eftirfarandi úrlausnarefni. Verði frumvarpið að lögum er ljóst að skipta verður almanaksárinu upp hjá þeim lífeyrisþegum og vistmönnum sem hafa atvinnutekjur og verða 70 ára á almanaksárinu. Þannig munu tekjur sem þeir afla fyrir 70 ára aldurinn skerða bætur með sama hætti og nú en aftur á móti munu tekjur sem aflað er eftir að 70 ára aldri er náð ekki skerða bæturnar. Hið sama gildir um atvinnutekjur maka, þ.e. þær skerða ekki bætur lífeyrisþegans sé þeirra aflað eftir að 70 ára aldri er náð. Atvinnutekjur maka á aldrinum 67–69 ára geta hins vegar haft áhrif á tekjutryggingu lífeyrisþega sem orðinn er 70 ára eða eldri, samanber b-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar.

Áætluðum tekjum lífeyrisþega og vistmanna fyrir árið 2007 hefur í samræmi við ákvæði 5. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga og 26. gr. laga um málefni aldraðra, þegar verið dreift jafnt yfir allt árið og hefur verið greitt út samkvæmt því, enda var ekki gert ráð fyrir því við gerð tekjuáætlana fyrir árið í ár að skipta þyrfti árinu upp miðað við 70 ára aldurinn. Þetta kann einnig að valda erfiðleikum við endurreikning og uppgjör bóta sem kveðið er á um í 7. og 8. mgr. 26. gr. laga um málefni aldraðra og 7. og 8. mgr. 16. gr., sbr. 55. gr., almannatryggingalaga, nr. 100/2007.

Þrátt fyrir að það sé almennt ívilnandi fyrir þennan hóp ellilífeyrisþega að dreifa tekjum jafnt yfir árið er það ekki svo í öllum tilvikum. Með hliðsjón af þessu og til að tryggja hagstæðustu niðurstöðu fyrir alla lífeyrisþega og vistmenn 70 ára og eldri leggur meiri hlutinn til að sett verði bráðabirgðaákvæði þar sem kveðið verði á um að ellilífeyrisþegar og vistmenn 70 ára og eldri geti óskað eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að tekjum þeirra og/eða maka verði skipt niður á tímabil fyrir og eftir gildistöku laganna eða 70 ára aldur, eftir því hvort er síðar á árinu. Á þetta ákvæði reynir einkum ef meðaltekjur á mánuði fyrir 70 ára aldur eru lægri en eftir að 70 ára aldri er náð. Ef meðaltekjur á mánuði fyrir 70 ára aldur eru hærri en eftir þann aldur hagnast viðkomandi einstaklingur á því að árið sé reiknað út í einu lagi. Það stafar af því að í jafndreifingu tekna kemur lægra hlutfall árstekna til skerðingar en raunverulega var aflað fyrir 70 ára aldur. Þessu er öfugt farið ef meðaltekjur á mánuði fyrir 70 ára aldur eru lægri en eftir það þar sem þá kemur hærra hlutfall árstekna til skerðingar en raunverulega var aflað fyrir 70 ára aldur.

Síðari málsliður bráðabirgðaákvæðisins mun aðeins taka til tiltölulega fárra einstaklinga og mun einkum gilda ef meðaltekjur hækka við 70 ára aldur. Meiri hlutinn leggur áherslu á að Tryggingastofnun ríkisins gegni leiðbeiningarskyldu sinni og hafi frumkvæði að því að upplýsa bótaþega um þetta atriði. Jafnframt leggur meiri hlutinn áherslu á að Tryggingastofnun upplýsi alla aldraða um þá breytingu að atvinnutekjur þeirra sem eru 70 ára eða eldri skerði ekki bætur frá stofnuninni.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Ásta Möller, Ásta R. Jóhannesdóttir, Pétur H. Blöndal, Árni Páll Árnason, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Ellert B. Schram.

Herra forseti. Þetta var álit meiri hluta hv. heilbrigðisnefndar og nú langar mig að segja nokkur orð frá eigin brjósti. Í fyrsta lagi er það grundvallaratriði í opinberum millifærslukerfum að ekki má láta fólk með lægri laun og lakari lífskjör greiða til fólks með hærri laun og betri lífskjör. Því miður eru mörg dæmi þess í reglum okkar og kerfum í dag að svo er háttað og þessa grundvallaratriðis hafi ekki verið gætt.

Annað sem ég vildi nefna. Við skulum hugsa okkur tvo menn sem vinna hlið við hlið og þeir séu með um 280 þús. kr. á mánuði. Annar verður 70 ára. Ef hann býr einn fær hann samkvæmt þessum reglum 126 þús. kr. til viðbótar eða alls 406 þús. kr. á mánuði. Þessar bætur eru að hluta til greiddar með sköttum þess yngri sem vinnur við hliðina á honum. Þeim félaga hans er því gert að greiða betri lífskjör til samfélaga síns. Þetta er vandinn sem ég nefndi um grundvallaratriðið og eftir því sem aldursmörkin eru færð neðar þeim muni meiri verður þessi mismunur og meira áberandi hjá fólki sem vinnur hlið við hlið, að öðrum er gert að greiða hinum bætur sem hækka lífskjör hins umtalsvert. Þess vegna þarf að ríkja um það sátt að þeir sem eru orðnir 70 ára hafi skilað ævistarfi sínu og eigi skilið að fá þessar bætur frá Tryggingastofnun óskertar.

Ég vil benda á að þessi mismunur á ekki við um lífeyri frá lífeyrissjóði sem alltaf er greiddur án tillits til tekna vegna þess að sá lífeyrir er greiddur með eign sem viðkomandi hefur safnað upp í gegnum starfsævina með eigin iðgjöldum og iðgjöldum atvinnurekenda vegna hans. Hann á því fyrir þeirri eign sinni, þeim lífeyri sínum, og þar af leiðandi er ekki um þá félagslegu mismunun að ræða sem ég nefndi að væri grundvallaratriði í millifærslukerfum.

Herra forseti. Það er önnur mismunun sem mun líka koma fram. Hún birtist hjá þeim öldruðu sem ekki geta unnið eða fá ekki vinnu. Þeir búa við miklu lakari lífskjör en hinir sem geta unnið og fá vinnu. Við skulum gefa okkur að sá sem fær vinnu sé með eins og áðan í dæminu 280 þús. kr. á mánuði. Ef þeir eru báðir með 80 þús. kr. úr lífeyrissjóði sem er meðallífeyrir frá lífeyrissjóði þá er sá sem ekki vinnur með 165 þús. kr. á mánuði fyrir skatt og eftir skerðingar hjá Tryggingastofnun. Hann fær sem sagt 80 þús kr. úr lífeyrissjóði og 85 þús. kr. skertar bætur frá Tryggingastofnun en hinn er með 445 þús. kr. á mánuði. Þarna myndast mismunur á milli aldraðra innbyrðis. Þetta þurfa menn að hafa í huga þegar þeir eru að taka svona ákvarðanir.

Það er reyndar mjög ólíklegt að aldraðir hafi jafnháar tekjur og vinnufélagar þeirra. Ef menn skoða ævitekjur einstaklinga eru þær yfirleitt hæstar um 40–50 ára aldur. Þá vinna menn mest, leggja harðast að sér, hafa líka mesta þörf fyrir laun, eru að koma upp börnum, eignast húsnæði og stofna atvinnurekstur þannig að ævitekjurnar sýna sig að vera hæstar um 40–50 ára en lækka síðan hratt eftir það. Þau dæmi sem ég nefndi eru því kannski ekki alveg sanngjörn að þessu leyti. En þetta þurfa menn að hafa í huga, þessa mismunun sem menn eru að búa til með þessum hætti.

En hvers vegna eru menn þá að þessu? Það er vegna þess að við þurfum á reynslu og þekkingu aldraðra að halda. Atvinnulífið þarf fólk til starfa og mjög margir aldraðir eru mjög sprækir og frískir og geta vel unnið. Það er sjálfsagt að nýta sér þekkingu þeirra og reynslu ef þeir vilja vinna. Fyrir hinn aldraða er þetta mjög mikið atriði. Það gleymist alltaf í umræðu um lífeyriskerfi og eftirlaun að vinnan er meira en bara brauðstrit, þ.e. að menn séu bara að afla sér fjár til þess að lifa af. Vinnan er líka hlutverk, hlutverk mannsins í þjóðfélaginu. Hún segir honum að hann sé einhvers virði, hann hafi eitthvert hlutverk. Það vill oft verða þegar menn hætta að vinna þá finnst þeim eins og þeir missi hlutverk. Þeir falla jafnvel í þunglyndi vegna þess að þeir hafa ekkert hlutverk lengur. Þessu mega menn ekki gleyma. Þess vegna er vinnan miklu meira en bara brauðstrit.

Og hún hefur fleiri þætti. Vinnan er líka félagslegt umhverfi. Þar eiga menn góða vinnufélaga sem þeir hitta daglega. Þeir fara á fætur, koma sér í vinnuna og hitta þar félagana. Það er félagsleg umgjörð sem rofnar þegar menn hætta allt í einu að vinna. Ég held að menn þurfi að horfa miklu meira á það hvers virði vinnan er fyrir hinn vinnandi mann og ekki alltaf líta á eins og vinnan sé einhver kvöð sem menn þurfa að losna við sem allra fyrst. Þetta frumvarp er mjög gott fyrir atvinnulífið. Það er gott félagslega fyrir hinn aldraða. Þess vegna er lögð áhersla á að það taki gildi sem allra fyrst, jafnvel þó það kosti nokkur útfærsluvandamál, eins og ég gat um áðan og ég er ekki viss um að allir hafi skilið fullkomlega.

Nokkrar hugmyndir aðrar hafa komið fram um að nota fjármuni til að bæta stöðu aldraðra. Þær er að finna á því þingskjali sem við vorum að samþykkja áðan með afbrigðum að taka til umræðu, frá minni hluta hv. heilbrigðisnefndar, þar sem gert er ráð fyrir að hámarkið sem í dag eru 300 þús. kr. á ári, þ.e. 25 þús. kr. á mánuði, verði hækkað í 960 þús. kr. á ári, þ.e. 80 þús. kr. á mánuði. Þetta mun þá kosta nokkuð svipað og þær hugmyndir sem meiri hlutinn er með.

Á móti þessu má segja að í fyrsta lagi fer þetta niður í 67 ár þannig að þau félagslegu vandamál og félagslega ósanngirni sem ég nefndi áðan verður enn meiri þegar 67 ára maður fer allt í einu að fá bætur frá Tryggingastofnun minna skertar. Auk þess hefur þetta þann ókost að tekjur sem fara umfram 80 þús. kr. eru skertar mjög harkalega. Þær eru skertar mjög harkalega á ákveðnu bili um 40% þannig að hvati manna til að vinna umfram 80 þús. kr. á mánuði minnkar mjög mikið. Sú lausn mundi stýra öllum inn í það að vinna fyrir 80 þús. kr. á mánuði eða minna. Það er engan veginn fullnægjandi fyrir flesta aldraða sem eru að vinna fyrir 200–300 þús. kr. eins og annað fólk. Ég held því að sú lausn vegna þessara tveggja annmarka sem ég nefndi, þ.e. að hún gildir fyrir tiltölulega yngra fólk, 67 ára, og einnig að hún stýri mönnum að vinna bara hálfan daginn fyrir 80 þús. kr. á mánuði, eða jafnvel enn minna, sé þar með ekki nægilega góð. Ég mun greiða atkvæði gegn þeirri tillögu.