134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:22]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það eru afar veik rök sem hv. þm. Pétur Blöndal færir fyrir máli sínu og reyndar kemur ekki fram í nefndarálitinu neitt um það af hverju þessi hópur, 70 ára og eldri, er sérstaklega tekinn út. Maður spyr sig: Af hverju er ekki reynt að gæta einhvers jafnræðis og allur hópurinn skoðaður eins og minni hlutinn leggur til? Minni hlutinn leggur til að frítekjumarkið verði hækkað á öllum hópnum 67 ára og eldri og ef meiri hlutinn vill endilega skipta öldruðum upp í hópa, í þessu tilviki tvo hópa, ofuraldraða sem eru 70 ára og eldri og svo hina sem eru aðeins yngri, væri þá ekki nær að skoða yngri hópinn og minnka tekjutengingarnar þar? Það er auðvitað hópurinn sem er virkari á vinnumarkaði og á auðveldara með að vinna. Hann er yngri og sprækari. Ef menn vilja endilega flækja kerfið og kljúfa það, af hverju er þá ekki horft til þessa hóps frekar?