134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:25]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt að sú sem hér stendur stóð fyrir því að minnka tekjutengingar mjög verulega á ellilífeyrisþega en það var gert á alla, hvern einasta ellilífeyrisþega, jafnt fyrir alla. Það er hvati líka fyrir þá sem eru yngri eins og fyrir þá sem eru eldri. Hv. þingmaður svarar mjög veikt varðandi það af hverju eigi að taka 70 ára og eldri út. Jú, af því að þeir vinna svo lítið. Það eru margar ástæður fyrir því. Þeir eru auðvitað eldri og ekki eins hressir þannig að ég spyr enn á ný: Af hverju er ekki farin sú leið sem minni hlutinn bendir á, að hækka frítekjumarkið á alla þannig að menn geti unnið sér inn 80 þús. kr. á mánuði, þ.e. 960 þús. frítekjumark á ári, fyrir allan hópinn? Það kostar svipað og lægri mörk kostnaðarmatsins með frumvarpinu. Þetta kostar sem sagt ekki meira en meiri hlutinn leggur til. Af hverju í ósköpunum er verið að kljúfa hóp aldraðra? Er ekki nær að örva alla til að vinna, líka þá sem eru sprækir 67–70 ára?