134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:27]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé rétt að draga það fram sem er kannski alvarlegast í þessu að hér er verið að búa til enn eina regluna hjá Tryggingastofnun, þ.e. fyrir þá sem eru 70 ára og eldri. Rökin sem hv. þm. Pétur Blöndal fór með áðan voru að það ætti að hvetja þetta fólk til að vinna. Ég spyr: Hvers vegna þá ekki að hvetja fólk 67–70 ára til að vinna?

Hv. þingmaður talaði um harkalega skerðingu miðað við tillögurnar sem við leggjum til í minni hlutanum, þ.e. að þegar tekið væri umfram 80 þús. kæmi 40% skerðing. Það er akkúrat rétt, það gerir það, og síðan 36% skattur. Eftir halda menn því 3.800 kr. af hverjum 10 þús. kalli. Þetta er það réttlæti sem hann vill fyrir fólk 67–70 ára en menn geta síðan haft 10 millj. í tekjur þegar þeir eru komnir yfir sjötugt og fengið 1,3 millj. frá Tryggingastofnun til viðbótar.