134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[11:55]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt það sem hv. þingmaður er að leggja til. Hún er að taka burtu það sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Breytingartillögur minni hlutans ganga út á það að báðar greinarnar séu umorðaðar, það komi nýtt frumvarp. Þetta er ekki lengur gamla frumvarpið um að að tekjur þeirra sem eru orðnir sjötugir hafi ekki áhrif á bætur Tryggingastofnunar. Nei, í staðinn er komið að frítekjumarkið hækki upp í 80 þús. kr. á mánuði fyrir alla. Það er verið að taka til baka.

Hv. þingmaður gengur gegn því að aldraðir sem eru sjötugir megi vinna án þess að það hafi áhrif á bætur Tryggingastofnunar. Hún er að leggja til að það verði fellt niður. Ef þessi breytingartillaga hennar verður samþykkt mun ekki nást fram vilji ríkisstjórnarinnar um að þeir sem eru sjötugir og eldri megi vinna án þess að það hafi áhrif á bætur Tryggingastofnunar.

Hv. þingmaður er að vinna gegn því, hún er að vinna gegn hagsmunum aldraðra, þeirra sem eru sjötugir eða eldri, með því að bæta stöðu öryrkja og aldraðra undir sjötugu, upp að 80 þús. kr. (Gripið fram í.) Nei. Það er verið að taka þá fjármuni sem eiga að fara til aldraðra sem eru sjötugir og eldri og setja þá til þeirra sem eru 67 ára og upp úr og til öryrkja líka. (Gripið fram í.) Hún leggur þetta til, hún er að taka burtu þær hugmyndir sem ríkisstjórnin er með í frumvarpi sínu.