134. löggjafarþing — 8. fundur,  12. júní 2007.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

11. mál
[12:07]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir gerir margsinnis að umræðuefni ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Það er í sjálfu sér gott að þingmenn framsóknarmanna skuli vera vel að sér í þeim og nefna þær oft á nafn. En mig langar í framhaldi af ræðu hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að benda á að lagt er til í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, þar sem talað er um bættan hag aldraðra, að tekjutenging launatekna 70 ára og eldri við lífeyri almannatrygginga verði að fullu afnumin, og það er það sem frumvarpið gengur út á.

Hins vegar stendur klárt og kvitt í þessari stefnuskrá samhliða að stefnt verði að hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna fyrir 67–70 ára. Í þessari stefnuyfirlýsingu kemur þetta skýrt og klárt fram og þá ætti hv. minni hluti heilbrigðisnefndar að geta tekið undir það þegar þau skref verða væntanlega stigin þar sem þeir leggja það nú til að frítekjumarkið verði hækkað úr 300 þús. kr. í 960 þús. Það er því a.m.k. von um það þegar næstu skref verða tekin hvað þetta varðar að þá verði minni hluti heilbrigðisnefndar samþykkur því.

Ég sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins styð að sjálfsögðu þetta frumvarp. Það er ívilnandi fyrir stóran hóp. Við erum að hvetja 70 ára og eldri til að taka ríkan þátt í atvinnulífi samfélagsins. Það er ekki bara hagur þeirra sem þar eiga hlut að máli heldur er það samfélagslegur hagur okkar allra að sem flestir séu virkir í atvinnulífinu. Fólk 67 ára til sjötugs er það að mestu leyti. Það eru sjálfsagt færri en fleiri sem taka lífeyri strax við 67 ára aldur (Forseti hringir.) þannig að þá þarf ekki að hvetja.